laugardagur, 19. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áframeldi á þorski þrefaldað í Noregi

18. janúar 2016 kl. 11:25

Þorskur á sundi.

Sjómenn fá helmings afslátt af kvóta ef þeir skila lifandi fiski.

Fimmtán framleiðendur í Noregi keyptu lifandi þorsk af sjómönnum til áframeldis á árinu 2015. Alls nam magnið 6.000 tonnum sem er þrefalt meira en árið 2013. 

Þorskur, sem skilað er lifandi í þessum tilgangi, reiknast aðeins að hálfu til kvóta. Byrjað var að veita sjómönnum afslátt af kvóta í þessu skyni árið 2008 sem jók áhuga þeirra á verkefninu. Samkvæmt upplýsingum frá norsku rannsóknastofnuninni Nofima er tilgangurinn með því að geyma fiskinn lifandi í kvíum fyrst og fremst sá að selja hann á þeim tíma þegar skortur er á þorski og verðið þar af leiðandi hátt. Það er fyrst og fremst á haustin, en þorskveiði Norðmanna fer að stærstum hluta fram á vetrarvertíðinni sem lýkur í maí. 

Af einhverjum ástæðum eru reglurnar í Noregi þær, að ekki má geyma fiskinn lifandi í kvíum nema í 12 vikur. Það er full stuttur tími til þess að geta nýtt hátt verð að hausti. Því hafa nokkrir framleiðendur óskað eftir því að fá að geyma þorskinn lengur í kvíunum. 

Haft er eftir sérfræðingi Nofima á vefnum fis.com að geymsla á lifandi þorski í kvíum sé enn á rannsóknastigi og ekki sé ljóst á þessu augnabliki hversu arðsöm hún sé.