mánudagur, 30. mars 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Afskriftir vegna sjávarútvegs minni en vegna annarra greina

19. september 2011 kl. 16:28

Togveiðar

Þetta kom fram í svar efnahags- og viðskiptaráðherra á Alþingi.

Heildarafskriftir í fjármálakerfinu á síðustu 5 árum voru samtals 517,7 milljarðar króna, skv. svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins (þskj.1839).

„Þessar tölur eru  athyglisverðar þegar einstakar atvinnugreinar eru skoðaðar sérstaklega. Á síðustu tveimur árum námu afskriftir vegna skulda í sjávarútvegi 10,5 milljörðum króna, en á  sama tímabili voru afskriftir vegna fasteignafélaga og fasteignaviðskipta 34,5 milljarðar,  25,3 milljarðar vegna byggingastarfsemi og hátt í 30 milljarðar vegna verslunar," segir Einar.

„Þetta segir mér að sjávarútvegurinn er að standa undir sínum skuldbindingum. Við vitum að sjávarútvegurinn hefur verið að taka á sig skuldir, meðal annars vegna hagræðingar í greininni. Sjávarútvegurinn hefur sjálfur greitt fyrir þessa hagræðingu, til dæmis með kaupum á  aflaheimildum. Þetta hefur auðvitað haft mikinn kostnað í för með sér, en greinin stendur sjálf undir hagræðingunni, en er ekki niðurgreidd með skattpeningum almennings. Þessar tölur eru algjörlega í andstöðu við þann áróður sem hafður hefur verið í frammi gegn sjávarútvegi, sem hefur gengið út á það að sjávarútvegur sé illa rekinn, illa staddur og nánast kominn að fótum fram. Þessar tölur segja okkur alveg hið gagnstæða. Þær segja okkur að sjávarútvegurinn sé vel rekinn og standi almennt vel undir skuldbindingum sínum,” segir Einar K. Guðfinnsson.

Á vef LÍÚ má sjá talnaefni tengt málinu.