sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aftur á kreik eftir Covid

Guðsteinn Bjarnason
1. júlí 2021 kl. 12:13

Marianne Rasmussen-Coulling hefur haft veg og vanda af skipulagningu Íslensku sjávarútvegssýningarinnar. MYND/GB

Íslenska sjávarútvegssýningin verður haldin í haust eftir að hafa verið frestað ítrekað vegna heimsfaraldurs.

Marianne Rasmussen-Coulling, framkvæmdastjóri Íslensku sjávarútvegssýningarinnar, Icefish, segir að hún verði haldin í Smáranum í Kópavogi 15. til 17. september næstkomandi, svo framarlega sem ekkert bakslag komi í covid-faraldurinn. Upphaflega stóð til að halda sýninguna hér á landi dagana 23. til 25. september 2020, en vegna heimsfaraldursins hefur þurft að fresta henni nokkrum sinnum.

„Auðvitað höldum við áfram að tala við sýnendur og athuga hvort vilji þeirra standi áfram til þess að taka þátt, því á endanum erum við starfandi vegna stuðnings þeirra. Þannig að þetta snýst ekki bara um það hvað við höldum heldur líka það sem þátttakendur í sýningunni halda.“

Stóru sjávarútvegssýningunum í Boston, Barcelona og Brussel hefur öllum verið frestað til ársins 2022, en Marianne er bjartsýn og segir ekkert að vanbúnaði að efna til öflugrar sjávarútvegssýningar hér á landi í september. Búið sé að bólusetja yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar og nú hefur öllum hömlum verið aflétt.

„Barcelona er til dæmis ekki í grænu landi hvað ferðalög snertir, og svo er það þannig að flestir gestirnir sem koma hingað verða frá Evrópulöndum. Sýningin í Brussel er miklu alþjóðlegri viðburður og mörg lönd eru miklu skemmra á veg komin. Það yrði erfitt þar ef enginn kæmi frá Ástralíu, Nýja-Sjálandi eða Asíulöndunum.“

Nokkrir landsbásar

Nokkur lönd verða með sérstaka landsbása þar sem fyrirtæki þeirra landa verða kynnt.

„Við erum með landsbása fyrir Danmörk, Færeyjar, Noreg og nú í fyrsta sinn verður Spánn með landsbás. Við erum mjög spennt fyrir þessu, og svo er aftur kominn mikill áhugi frá Tyrklandi enda hafa þeir verið að smíða skip fyrir Íslendinga og vilja vera með aftur.“

Hún segir að við skipulagningu á viðburði af þessu tagi þurfi að taka mið af því hvernig landið er í stakk búið vegna covid.

„Við erum að vinna með það sem vitað er núna, og þá skoðum við bæði það sem er að gerast í Bretlandi og það sem er að gerast á Íslandi. Fólk er farið að geta ferðast eins og við gátum fyrir covid.“

Nýmæli á netinu

Nýmæli á sýningunni í ár er stóraukinn áhersla á vefútgáfu sýningarinnar og netviðburði.

„Núna þegar allt er að fara í gang aftur höfum við útvegað öllum sýnendum okkar aðgang að sýningarskrá á netinu. Þar geta þeir birt upplýsingar um sjálfa sig, sett inn myndbönd og fleira.“

Á vefútgáfu sýningarinnar geta sýnendur birt allar upplýsingar um vörur sínar og skipulagt myndfundi í netherbergjum.

„Allir sem taka þátt í sýningunni fá sjálfkrafa aðgang að þessari netsýningu líka. Svo hafa þeir einnig möguleika á því að gera meira úr efni sínu þar, en þá þurfa þeir að greiða viðbótargjald,“ segir Marianne.

Tímabært

Á fimmtudag í síðustu viku fundaði ráðgjafanefnd Íslensku sjávarútvegssýningarinnar til að ræða undirbúning og áætlanir fyrir sýninguna. Nefndin lýsti yfir fullum stuðningi við fyrirliggjandi áform um afbragðs sýningu í september, en í nefndinni sitja fulltrúar frá eftirtöldum aðilum: atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Marel, Sæplast, Samhentir Kassagerð, bæjarstjórn Kópavogs, Valka, Íslyft og Hampiðjan á Íslandi. Nefndinni til fulltingis er teymi skipað stjórnendum og fulltrúum almannatengslasviðs Íslensku sjávarútvegssýningarinnar.

"Nefndarmenn voru einróma um að tímabært væri að setja á fulla ferð að nýju eftir nær hálft annað ár af takmörkunum og tilheyrandi einangrun samfara heimsfaraldrinum, og taka höndum saman um að Icefish í september verði sem best úr garði gerð í samræmi við áætlanir," segir í tilkynningu.