þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aftur reynt að fæla síldina í Kolgrafafirði

29. nóvember 2013 kl. 14:07

Kolgrafafjörður (mynd af vef RÚV)

Slíkar aðgerðir hafa ekki verið reyndar áður annars staðar svo vitað sé.

Fyrstu vísbendingar um árangur af síldarfælingu með svokölluðum „Thunderflash“ hvellhettum í Kolgrafafirði í gær benda til þess að aðferðin virki við að smala síld.  Ákveðið  hefur verið að nýta reynsluna frá í gær til þess að halda áfram fælingaraðgerðum í dag í því skyni að kanna hvort aðferðin dugi til að koma meginhluta síldarinnar af því svæði þar sem hún er í mestri hættu.

Hafrannsóknarstofnun vinnur nú að því að mæla magn síldar í firðinum nú, eftir aðgerðirnar í gær. Að þeim mælingum loknum verður hafist handa við að undirbúa framhald aðgerðanna í dag en ekki verður ljóst fyrr en undir kvöld með árangur þeirra.

Í frétt á vef atvinnuvegaráðuneytisins ennfremur: 

Rétt er að taka fram að slíkar aðgerðir hafa ekki verið reyndar áður annars staðar eftir því sem menn komast næst. Ráðist er í þær í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem eru í húfi endurtaki atburðirnir frá í fyrra sig, þegar síld drapst í tvígang í firðinum í tugþúsunda tonna tali.  Eins og við var búist höfðu aðgerðirnar í gær ekki neikvæð áhrif á síldina  - ekki varð vart við dauða síld í kjölfar þeirra og eru ekki taldar líkur á slíkum áhrifum.

Sjá nánar á vef ráðuneytisins.