föstudagur, 15. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Afurðaverð lækkaði um 1,1% í janúar

26. febrúar 2010 kl. 15:00

Verð á íslenskum sjávarafurðum (meðaltal allra afurðaflokka) mælt í erlendri mynt lækkaði um 1,1% í janúar síðastliðnum. Þetta er byggt  á útreikningi IFS Greiningar m.v. tölur um framleiðsluverð í janúar sem Hagstofan birti í morgun.

Afurðaverð hefur hækkað frá og með öðrum fjórðungi 2009. Nú er verðið að meðaltali 6% hærra en í mars 2009 mælt í erlendri mynt. Afurðaverðið hefur þó ekki hækkað síðustu þrjá mánuði. Tölurnar undanfarna mánuði sýna því að markaðir erlendis eru að ná betra jafnvægi.

Verð á fiskimjöli er mjög hátt eða 1.680 USD/tonnið og hefur hækkað mikið undanfarið. Það er mikið í húfi fyrir íslensku sjávarútvegsfyrirtækin að vel veiðist af uppsjávarfiski á næstunni.

Verð á sjófrystum botnfiskafurðum hækkaði verulega á síðari hluta ársins 2009 en nú hefur hægt á þeirri þróun.

Verð á saltfiski er enn fremur lágt enda er efnahagsástand á mikilvægum mörkuðum í Suður-Evrópu erfitt.

Afurðaverð í erlendri mynt er nú  álíka hátt og um mitt ár 2006.

Núverandi verð er að okkar mati ásættanlegt fyrir flest íslensku sjávarútvegsfyrirtækin, segir jafnframt í samantekt frá IFS Greiningu.