laugardagur, 31. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ágæt þorskveiði á Halanum

14. ágúst 2020 kl. 16:22

Helga María AK. Mynd/Brim

Togarinn Helga María AK hefur lokið verkefnum við Grænland og er kominn á veiðar við Ísland.

Ísfisktogarinn Helga María AK er nú á Halamiðum og þar er enn ágæt þorskveiði að sögn skipstjórans, Heimis Guðbjörnssonar í viðtali á heimasíðu Brims.

„Við fórum í fyrstu veiðiferðina á Íslandsmiðum, eftir hafrannsóknaverkefnið við Grænland í sumar, í síðustu viku og lönduðum fullfermi, eða um 185 tonnum, í Reykjavík sl. þriðjudag. Uppistaða aflans var þorskur og karfi auk nokkurra tonna af ufsa. Við fórum svo aftur út um kvöldið og tókum upp þráðinn þar sem frá var horfið á Halanum,” segir Heimir en hann upplýsir að enn sé góð þorskveiði á Halanum. Á sama tíma í fyrra var engin þorskveiði á þessum slóðum og þurftu skipin að vera á miðunum úti fyrir Norðurlandi til að fá þorsk.

„Eini munurinn nú í samanburði við túrinn á undan er að þorskurinn virðast hafa leitað í hlýrri sjó nær landi. Það stafar af því að fiskurinn fylgir hitaskilunum og þau hafa færst sunnar á þessum tíma,” segir Heimir en í máli hans kemur fram að svo virðist sem að þorskveiðin hafi dalað á Kolbeinseyjarsvæðinu og margir togarar, sem þar hafa verið að veiðum, séu komnir vestur á Halann. Frystitogararnir séu svo margir í nágrenni við Víkurálinn en þeir verði væntanlega komnir austur að Hornbanka nk. mánudag í von um ýsuveiði þegar svokallað Hornbankahólf verður opnað fyrir veiðum.

„Við vorum um skeið í Víkurálnum í síðustu veiðiferð eða nánar tiltekið í ,,Nætursölunni” en þar er hólf sem opið er fyrir veiðum frá því klukkan átta á morgnana og til átta á kvöldin. Þar fengum við góðan gullkarfa og það var nóg af honum,” segir Heimir.