sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áhersla á ólöglegar veiðar á fundi sjávarútvegsráðherra Norður-Atlantshafsins

26. maí 2008 kl. 16:00

Árlegur fundur sjávarútvegsráðherra Norður-Atlantshafsins var haldinn á Möltu 22-24 maí sl. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra tók þátt í fundinum, en auk Íslendinga sóttu fundinn Norðmenn, Grænlendingar, Færeyingar, Kanadamenn, Rússar og fulltrúar Evrópusambandsins.

Aðalefni fundarins voru aðgerðir gegn ólöglegum og óábyrgum fiskveiðum. Ekki hefur sést til sjóræningjaskipa við veiðar á Reykjaneshrygg það sem af er þessa árs né á síðasta ári, en undanfarin ár hafa veiðar þessara skipa verið viðvarandi vandamál. Í baráttunni gegn veiðum þeirra hefur eftirlit með löndun afla verið hert og skipum sem stundað hafa ólöglegar veiðar er bannað að koma til hafna aðildarríkja Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar og Norðvestur-Atlantshafs fiskveiðistofnunarinnar.

Fundurinn lýsti yfir mikilvægi þess að samkomulag náist í næsta mánuði um samræmdar alþjóðlegar hafnríkisreglur sem unnið er að á vettvangi Fiskimálanefndar matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu Þjóðanna. Reglurnar miða m.a. að því að koma í veg fyrir löndun afla af ólöglegum uppruna.

Að lokum var annars vegar rætt stuttlega um loftslagsbreytingar og mögulegar afleiðingar þeirra fyrir vistkerfi hafsins og fiskveiðar í Norður-Atlantshafi. Hins vegar var rætt um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins og var í þeim efnum sérstaklega rætt um stækkandi selastofna og áhrif þeirra á fiskistofna, að því er segir í fréttatilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.