mánudagur, 30. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áhrif hljóðmengunar rannsökuð í Kattegat

Guðsteinn Bjarnason
7. júlí 2019 kl. 07:00

Skúta dönsku konungsfjölskyldunnar á siglingu um Kattegat fyrir nokkrum árum. MYND/EPA

Dönsk og sænsk yfirvöld hafa komið sér saman um að færa helstu siglingaleiðir um Kattegat. Vísindamenn hyggjast nýta sér tækifærið til að kanna áhrif hljóðmengunar á lífríkið í sjónum.

Frá og með sumrinu 2020 verða helstu siglingaleiðirnar um Kattegat færðar til, samkvæmt sameiginlegri ákvörðun siglingayfirvalda í Danmörku og Svíþjóð. Er þetta gert í þeim tilgangi að tryggja betur öryggi skipa og báta er sigla þar um.

Vísindamenn sjá sér þarna leik á borði og ætla að nota þetta tækifæri til að gera rannsóknir á áhrifum hljóðmengunar á lífríkið í sjónum. Bæði verður hægt að skoða hvaða áhrif nýjar siglingaleiðir hafa og einnig verður hægt að skoða hvað breytist á þeim slóðum sem siglingaleiðirnar hafa hingað til legið um, en losna nú við hljóðmengunina.

Um þetta er fjallað í kanadíska veftímaritinu Hakai Magazine.

Fjölfarin siglingaleið
Kattegat er með fjölförnustu skipaleiðum í heimi. Um það bil 80 þúsund skip fara þar um á ári hverju, þar á meðal skemmtiferðaskip og olíuflutningaskip sem ekki eru nein smásmíði.

Hljóðin frá smærri bátum jafnt sem stærri skipum hafa margvísleg áhrif á lífið í sjónum.

„Rannsóknir hafa sýnt að sumir fiskar til dæmis verja meiri tíma í að svipast um eftir óvinum en að sinna afkvæmum sínum þegar hávær bátahljóð eru í umhverfinu,“ segir í greininni í Hakai Magazine. „Og sum sjávarspendýr á borð við hvali geta átt erfiðara með að finna fæðu eða eiga í samskiptum þegar hávaðinn er mikill.“

Rannsóknarverkefnið í Kattegat nefnist TANGO og nýtur stuðnings frá IQCE, The International Quiet Ocean Experiment, vísindasamstarfi sem styrkir ýmsar rannsóknir á hljóðheimi hafsins og áhrifum hljóðs á lífríkið í hafinu.

Hnísurnar vaktaðar
Athygli verður sérstaklega beint að hnísum og viðbrögðum þeirra við breytingum á hljóðumhverfinu, ekki síst í ljósi þess að hnísum hefur farið ört fækkandi á þessum slóðum.

Fyrir nokkrum vikuðum var byrjað að koma fyrir hljóðnemum neðansjávar sem eiga að nema hvers kyns hljóð í umhverfinu, jafnt náttúrleg sem þau er stafa af umsvifum manna.

Almennt er ætlunin að skoða ýmsar breytur „á núverandi skipaleið, á nýju skipaleiðinni og á viðmiðunarsvæðum fjarri skipaleiðum,“ að því er segir í verkefnalýsingu á á vef IQCE.

„Þetta verður gert í að minnsta kosti heilt ár áður en skipaleiðin breytist, til að fá grunn til samanburðar, og í að minnsta kosti eitt ár eftir breytinguna.“