fimmtudagur, 24. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áhrif plasts á umhverfið er stórslys

1. desember 2017 kl. 14:00

Á hverju ári fara 8 milljónir tonna af plasti í heimshöfin

„Ef ég á að lýsa því með einu orði hvaða áhrif umbúðir hafa á umhverfið þá er það „stórslys“. Þetta voru umbúðalaus upphafsorð Peter Whittle, framkvæmdastjóra umbúðafyrirtækisins Tri-pack Plastics, í málstofu um umbúðir og áhrif þeirra á umhverfið á Sjávarútvegsráðstefnunni.

Whittle sagði að eflaust þætti mörgum undarlegt að heyra þetta frá framkvæmdastjóra fyrirtækisins sem sérhæfir sig í framleiðslu á umbúðum úr plasti. En staðreyndirnar tali sínu máli.

„Á hverju ári eru framleidd 300 milljónir tonna af plasti. Helmingurinn þessa magns er einnota plast sem er fleygt að notkun lokinni. Plast er stórkostlegt efni vegna þess að það er endingargott. En um leið er það hræðilegt efni af sömu sökum. 80% af öllu því plasti sem hefur verið framleitt frá upphafi vega er enn á jörðinni í einu eða öðru formi. Við erum bókstaflega að drukkna í hafsjó af plasti,“ sagði Whittle.

8 milljónir tonna í hafið árlega

Hann dró upp ógnvænlega mynd af ástandi mála hvað þetta varðar. Á hverju ári fari 8 milljónir tonna af plasti í heimshöfin. Áætlað sé að þetta magn hafi tvöfaldast árið 2030 verði ekki gripið til aðgerða. Einnig sé talið að árið 2050 vegi magn plasts í heimshöfunum þyngra en allir fiskar sjávar.

Whittle segir að eina leiðin út úr þessum óförum sé að draga úr notkun plasts, endurnýta það og endurvinna. Það sem vinni gegn þessu sé sú staðreynd að megin uppspretta umbúða fyrir sjávarafurðir sé plastefni sem sé sérstaklega erfitt að endurnýta og endurvinna og það er frauðplast.

„Á hverju ári eru framleiddar um 14 milljónir tonna af frauðplasti. Þessi framleiðsla hefur áratugum saman skapað umhverfisógn. Ástæðan fyrir vinsældum frauðplasts er hve létt það er, höggþolið, mótanlegt og hve einangrunargildi þess er hátt fyrir sjávarafurðir. Frauðplast inniheldur eingöngu 2% af plasti en 98% af lofti og er því einstaklega óhagkvæmt í endurvinnslu. Einungis brotabrot af öllu frauðplasti er endurunnið og þess vegna er það einn mesti mengunarvaldur jarðar.“

Yfir 100 borgir bannað frauðplast

Whittle segir að yfir 100 borgir um allan heim hafi brugðist við neikvæðum heilsufars- og umhverfisáhrifum frauðplasts með því að banna notkun þess. Hann fagnar framtaki svo margra borga en bendir á að það muni taka mörg ár eða jafnvel áratugi að stöðva alla notkun frauðplasts.

Tri-pack Plastics hefur brugðist við þessum vanda með þróun og framleiðslu plastumbúða fyrir sjávarafurðir úr polpropylene plasti sem er margnota, endurnýtanlegt og endurvinnanlegt. Plastkassar Tri-pack Plastics fyrir sjávarafurðir kallast CoolSeal. Plastið er framleitt úr kolefni og vetni og er í hópi polyolefin plastefna sem auðveldust eru í endurvinnslu.

Fyrirtækið sér fjölda fyrirtækja fyrir margnota CoolSeal umbúðum. Einn þeirra er stór laxeldisframleiðanda í Skotlandi. Áður notaði þessi framleiðandi 650.000, 20 kg frauðplastkassa til að flytja afurðir sínar á markað. Þegar varan var komin á áfangastað var frauðplastkössunum fargað. Whittle segir þennan framleiðanda hafa sparað sér umtalsverðar fjárhæðir í umbúðakaupum og lagt sitt af mörkum til umhverfismála með því að hætta notkun frauðplasts og hefja notkun margnota umbúða.

Þeir sem vilja kynna sér lausnir Tri-pack Plastics er bent á heimasíðu fyrirtækisins www.tri-pack.co.uk.