sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áhrif veiðibanns lengi að koma fram

svavar hávarðsson
11. maí 2019 kl. 09:00

Lúðuafli skýrist alfarið af meðafla á öðrum veiðum. Mynd/Guðlaugur Albertsson

Landaður afli af lúðu jafnt og þétt að aukast.

Lúðuafli frá upphafi banns við beinni veiði á tegundinni hefur jafnt og þétt verið að aukast. Var aðeins 35 tonnum landað árið 2012 en náðu 133 tonnum árið 2018. Mest af þessum afla er trollveiddur en um meðafla við veiðar á öðrum tegundum er að ræða.

Þessar tölur um lúðuafla koma fram í svari sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Ingu Sæland, Flokki flokksins, um lúðuveiðar.

Ráðgjöf hunsuð

Hafrannsóknastofnun hafði lagt til allt frá árinu 1997 að bein sókn í lúðu yrði óheimil. Þvert á þessa ráðgjöf jókst bein sókn með haukalóðum stórlega árið og árið 2010 voru 46% lúðuaflans veidd með haukalóðum. Svo fór að ráðherra setti á laggirnar starfshóp í júní það ár sem fjallaði um stöðu lúðustofnsins.

Í niðurstöðum starfshópsins kom fram að erfitt væri að eiga við lúðuveiðar þar sem ákveðinn hluti landaðs afla væri meðafli þar sem lágt hlutfall landaðs afla væri lúða og því hefðu lokanir á ákveðnum svæðum takmörkuð áhrif til verndunar lúðustofnsins en merkjanleg áhrif á aðrar veiðar. Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að einfaldasta og áhrifaríkasta leiðin til að vernda lúðustofninn væri að banna beina sókn í lúðu með haukalóðum.

Lokanir útilokaðar

Í júlí árið 2011 óskaði ráðherra eftir tillögum Hafrannsóknastofnunar um næstu skref í friðun. Einkum tvennt var talið koma til greina. Lokun veiðisvæða þar sem unglúða heldur sig eða sleppingar á allri lífvænlegri lúðu sem veiðist sem meðafli. Stofnunin kallaði reynda skipstjórnarmenn til samráðs. Heildarniðurstaðan var að svæðalokanir væru slæmur kostur þar sem sú aðgerð myndi þýða umtalsverðar hömlur á veiðum annarra tegunda. Sleppingar á lífvænlegri lúðu þóttu skárri kostur, þó að á honum væru ýmsir gallar, t.d. hvað varðaði botnvörpuveiðar.

Viðkomubrestur lúðu

Í greinargerð Hafrannsóknastofnunar sem birtist með svari ráðherra segir að aldursgreindar vísitölur sýna að árgangar 1980–1985 voru stórir í samanburði við aðra árganga. Eftir það varð viðkomubrestur í stofninum og allir árgangar síðan litlir, að undanskildum árganginum frá 1990. Allir árgangar eftir 1990 hafa verið langt innan við helmingur af meðalstærð árganga fyrir þann tíma.

Þrátt fyrir þetta má sjá að lífmassavísitala lúðu jókst hratt 2012–2015, en lífmassavísitalan er þó lág í sögulegu samhengi. Ástand lúðustofnsins hefur því batnað lítillega eftir að gripið var til aðgerða til verndar stofninum. Hins vegar ber þess að geta að sá hluti lúðustofnsins sem heldur sig uppi á landgrunninu er fyrst og fremst ung og ókynþroska lúða. Lúða verður kynþroska seint eða 9–10 ára og því verða áhrif bannsins lengi að koma fram.

Tíu helstu löndunarhafnir lúðu frá 2012 til 2018 voru Reykjavík, Vestmannaeyjar, Grundarfjörður, Ísafjörður, Grindavík, Bolungarvík, Hafnarfjörður, Þorlákshöfn, Patreksfjörður og Skagaströnd.