fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áhugi stjórnvalda í mýflugumynd

Svavar Hávarðsson
26. janúar 2019 kl. 07:00

Hlutverki Verkefnasjóðs í fjármögnun Hafrannsóknastofnunar virðist lokið.

Margur vill meina að yfirlýstur áhugi ríkisstjórnarinnar á eflingu hafrannsókna séu orðin tóm. Ljóst er að breyta þarf fyrirkomulagi við fjármögnun Hafrannsóknastofnunar.

Fyrir síðustu helgi gaus enn og aftur upp umræða um stöðu hafrannsókna með tilliti til fjárframlaga til Hafrannsóknastofnunar. Fyrirsjáanlegur niðurskurður um ríflega 300 milljónir var ræddur á starfsmannafundi innan stofnunarinnar og þýðing hans – uppsagnir starfsmanna og að öðru af tveimur hafrannsóknaskipum yrði lagt.

Áður en höggið var á hnútinn, í bili, lá það fyrir að fjármögnun hluta af starfi stofnunarinnar í gegnum Verkefnasjóð sjávarútvegsins skýrði það gat sem hafði myndast í fjármögnun stofnunarinnar. Sjóðurinn hefur tekjur sínar af svokölluðum VS-afla – lönduðum fiski sem seldur er á markaði samkvæmt sérstökum reglum.

Munu ekki hækka

Þegar mest var fóru tekjur sjóðsins í 880 milljónir króna en hafa lækkað niður í um 250 milljónir króna frá þeim tíma. Í fjárlagafrumvarpi þessa árs sagði að ólíklegt sé talið að tekjurnar aukist aftur.

Tekjuáætlun Hafrannsóknastofnunar lækkaði verulega milli ára í fjárlagafrumvarpinu vegna þessa. Í henni var gert ráð fyrir að styrkir úr sjóðnum lækki vegna minnkandi tekna hans, en stofnunin hefur notið þeirra mjög við fjármögnun ýmissa verkefna í gegnum árin. Atburðarásin fyrir helgi byggði á þessum skalla í áætlunum um fjármögnun stofnunarinnar. Hafa menn í opinberri umræðu spurt af hverju ekki var búið að taka á þessu fyrr – og vissulega lítur út fyrir að forstjóri Hafrannsóknastofnunar hafi þurft að draga upp mynd uppsagna og skipa við bryggju til að vekja ráðamenn. Má á það minna að forstjóri Hafrannsóknastofnunar sendi árum saman staðlað bréf inn til Atvinnuveganefndar Alþingis við fjárlagavinnu síðustu ára. Alltaf til að minna á að það verði að auka hafrannsóknir við Ísland og fá nýtt skip til þeirra verkefna sem eru mest aðkallandi. Nú hillir undir að nýtt skip verði smíðað, enda því lofað þjóðinni á 100 ára fullveldisafmælinu.

Leikmenn spyrja sig hvað snýr upp og hvað niður í málinu. Yfirlýstur er vilji ríkisstjórnarinnar um auknar hafrannsóknir – það er skjalfest í stjórnarsáttmálanum. Þar segir: „Hafrannsóknir gegna lykilhlutverki fyrir sjálfbæra auðlindanýtingu og þær þarf að efla.“ Og á öðrum stað: „Þannig á Ísland að efla rannsóknir á súrnun sjávar í samráði við vísindasamfélagið og sjávarútveginn“. Á sama tíma kemur hagræðingarkrafa á stofnunina sem virðist ganga þvert á yfirlýsta áherslu stjórnarinnar.

Höggið á hnútinn

Þó höggið hafi verið á hnútinn fyrir helgi og ekki standi til að segja upp fólki eða leggja hafrannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni, segja viðmælendur Fiskifrétta það blasa við að ekki er verið að blása til sóknar í hafrannsóknum hérlendis. Þær viðbætur sem hafa runnið til stofnunarinnar á síðustu tveimur árum hafa í raun verið til að stunda bráðnauðsynlegar rannsóknir sem ættu að vera full fjármagnaðar fyrir, eins og á loðnustofninum. Rannsóknum sem útgerðarfyrirtæki tóku að sér fyrir ekki svo löngu síðan þegar ekki fékkst til þess fé frá stjórnvöldum, og skiluðu milljörðum í þjóðarbúið þegar upp var staðið.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa aftur og ítrekað bent á þörfina á því að efla hafrannsóknir við Ísland. Ekki bara til að tryggja að helstu nytjastofnar séu nýttir með sjálfbærum hætti heldur einnig í ljósi breytinga í hafinu – hlýnun þess og súrnun. Á þetta hefur starfsfólk Hafrannsóknastofnunar bent oftar en verður talið.

Þá er jafnframt á það bent að gjaldtaka af útgerðinni í landinu – og byggir á lögum landsins – er eyrnamerkt hafrannsóknum og annarri þjónustu við greinina.

„...hvernig í ósköp­un­um má það vera að ástandið sé með þess­um hætti þegar ríkið hafði lík­lega meiri bein­ar tekj­ur af sjáv­ar­út­vegi á ár­inu 2018 en nokkru sinni fyrr, veiðigjöld­in ein og sér skiluðu rík­is­sjóði tvö­falt meiru en kost­ar að reka Haf­rann­sókna­stofn­un og tekj­ur af veiðigjöld­um eru að hluta „eyrna­merkt­ar“ haf­rann­sókn­um?,“ skrifar Sig­ur­geir Brynj­ar Krist­geirs­son, fram­kvæmda­stjóri Vinnslu­stöðvar­inn­ar í Vest­manna­eyj­um.

Óútskýrðar öfgar

Yfirleitt hefur verið talað um Hafró-sjóð eða Hafró-afla, þegar rætt er um Verkefnasjóðinn eða aflann sem tekjur sem til hans renna byggja á. Þegar málið reis sem hæst fyrir helgi kom það hins vegar ítrekað fram í máli Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegsráðherra, og einnig Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, að þessi aðferð við fjármögnun hafrannsókna væri óboðleg. Þessi aðferðafræði virðist því hafa runnið sitt skeið og má telja líklegt að Verkefnasjóðurinn verði aflagður í núverandi mynd.

Mestur varð VS-aflinn fiskveiðiárin 2008/09 eða um 4.300 tonn. Í meðfylgjandi töflu má einnig sjá að veiðiheimildir í þorski voru aðeins 160.000 tonn. Á síðasta ári var landað 935 tonnum af þorski sem VS-afla úr 255.000 tonna kvóta.

Hér eru öfgar sem erfitt er að fá skýrðar. Fyrsta sem kemur upp í hugann er að með öflugri þorskstofni sé orðið svo auðvelt að sækja fallegan þorsk að minna falli til sem undirmál. Eins gæti komið inn í þessa mynd meiri fullvinnsla afurða, en miklu meiri áhersla er á betri nýtingu en áður var. Brottkast er að sjálfsögðu nefnt, en jafnframt erfitt að meta hvernig það fellur inn í þessa mynd út frá fyrirliggjandi upplýsingum.

Fréttin birtist í Fiskifréttum 17. janúar.