þriðjudagur, 20. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áhyggjur af öryggi skips og áhafnar

Guðsteinn Bjarnason
4. október 2020 kl. 08:00

Öryggi sjómanna í samhengi við fækkun í áhöfn skipa hefur lengi verið til umfjöllunar. Mynd/Borgar Björgvinsson

Lagaumhverfi áhafna skipa tekin til heildarendurskoðunar. Félög skipstjóra, sjómanna og vélstjóra segja útgerðir þrýsta á um fækkun í áhöfn umfram það sem skipstjórar og áhafnir telja skynsamlegt.

Stjórnvöld hafa kynnt á Samráðsgátt áform um heildarlöggjöf um áhafnir skipa, lögskráningu sjómanna og fleiri atriði sem lúta að mönnun og réttindum áhafna. Heildarendurskoðun verði gerð á þeim lögum sem nú gilda um þessi mál, en nú er ákvæði þar um að finna í nokkrum ólíkum lagabálkum.

Ætlunin er að semja frumvarp þar sem þeir lagabálkar verði samþættir í ein lög. „Farið verður yfir löggjöfina á þessu sviði, greint hvað er úrelt eða þarfnast uppfærslu og breytinga,“ segir í kynningu á Samráðsgáttinni. „Í þeirri vinnu verði m.a. ákvæði um menntun og réttindi áhafna, lögskráningu, kröfur um mönnun um borð í skipum, hlutverk Samgöngustofu í tengslum við stjórnsýslu og eftirlit, undanþágur og lögfestingu alþjóðlega kóðans um öryggisstjórnun skipa fyrir fiskiskip sem eru 45 metrar og lengri (ISM kóðinn), tekin til skoðunar.“

Lagabálkar felldir niður

Þessi löggjöf komi í staðinn fyrir lög um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, lög um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, lög um lögskráningu sjómanna og lög um bryta og matreiðslumenn á farskipum og fiskiskipum.

Félag skipstjórnarmanna, VM Félag vélstjóra og málmiðnaðarmanna og Sjómannasamband Íslands hafa lýst yfir ánægju með þessi áform, en segja mikilvægt að vandað verði til verka „því eins og málum er nú háttað ráða útgerðarmenn mestu um hve margir eru í áhöfn fiskiskipa og ýmissa annarra skipa við hinar ýmsu veiðar og verkefni.“

Jafnframt segir í umsögn þeirra á Samráðsgátt: „Borið hefur á því að ákveðnar útgerðir hafa fækkað í áhöfn og þrýstingur er hjá fleiri útgerðum um fækkun umfram það sem skipstjórar og áhafnir telja skynsamlegt.“

Sjómenn hafa áhyggjur

Fulltrúar sjómanna hafa áhyggjur af því að slík fækkun „leiði til þess að skipverjar fái ekki þá hvíld sem nauðsynleg er og þannig sé öryggi og heilsu áhafnar og skips stefnt í hættu.“

Því sé nauðsynlegt að í lögum verði ákvæði um lágmarksmönnun skipa „að teknu tilliti til stærðar og verkefna skipsins.“

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) taka hins vegar undir þá hugmynd að „rétt sé að mönnun skipa sé ekki málefni löggjafans heldur framkvæmdarlegs eðlis. Mismunandi útgerðarform, rekstur skipa og verkefni þeirra kalla á ólíka mönnun,“ eins og það er orðað í kynningu stjórnvalda.

SFS segja, í umsögn sinni á Samráðsgátt, mikilvægt að þessi sjónarmið nái fram að ganga í nýjum heildarlögum um áhafnir skipa: „Á það ekki síst við um menntunarstig réttindamanna og samspil sjótíma við ávinning réttindastiga vélstjórnar- og skipstjórnarmanna.“