mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aldrei áður mælst eins mikið af makríl við Ísland

11. ágúst 2015 kl. 10:03

Makrílrannsóknir um borð í Árna Friðrikssyni nú í sumar. (Mynd: Guðm. Bjarnason).

Mun meira magn fyrir sunnan landið en fyrr.

Í gær lauk rúmlega fimm vikna löngum leiðangri Árna Friðrikssonar sem hafði það megin markmið að meta magn og útbreiðslu makríls umhverfis Ísland og við Grænland. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum er heildarmagn makríls á Íslandsmiðum meira en nokkru sinni frá því að athuganirnar hófust árið 2009, að því er segir í frétt á vef Hafrannsóknastofnunar. 

Ennfremur sýna bráðbirgðaniðurstöður mun meir magn og suðlægari útbreiðslu makríls sunnan við Ísland en undanfarin ár. Þá var makríll fyrir öllu Vestur- og Austurlandi í svipuðu magni og fyrri ár, en lítils var vart norður af landinu. 

Framundan er frekari úrvinnsla á gögnum frá leiðangrinum og munu helstu niðurstöður hans verða kynntar seinna í sameiginlegri skýrslu þeirra aðila sem að leiðangrinum komu. 

Við Grænland var makríl að sjá á stærsta hluta rannsóknasvæðisins og náði útbreiðsla hans allt suður fyrir Hvarf. Makríllinn var þó á þessu svæði hnappdreifðari en fyrri ár og magn hans minna. 

Mæling Árna Friðrikssonar er hluti af sameiginlegum rannsóknum Íslendinga, Norðmanna, Færeyinga og Grænlendinga á dreifingu og magni helstu uppsjávartegunda í Norðaustur-Atlantshafi ásamt athugunum á magni átu og umhverfisþáttum á svæðinu. 

Sjá nánar á vef Hafrannsóknastofnunar.