miðvikudagur, 1. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áleitnar spurningar um loðnuna

26. febrúar 2020 kl. 14:05

Einar Sveinbjörnsson spyr hvort æ lengri ferðalög loðnunnar norður á bóginn í ætisleit séu henni um megn.

„Loðnan er ekki týnd," segir Einar Sveinbjörnsson verðurfræðingur í pistli á vef sínum, blika.is. Hann segir loðnuleitina í vetur minna á „ævintýralega síldarleit sem fram fór sumurin 1967 og 1968. Þá héldu menn að síldin væri týnd norður í höfum þegar hún var í raun horfin með öllu.“

Hann segist nokkrum sinnum hafa bent á þá augljósu kenningu að „hnignun loðnustofnins sé eitt skýrasta merkið um loftslagsbreytingar sem hér eru að verða og með hlýnun sjávar við landið.  Íslandsmið eru nefnilega á suðurmörkum kjörsvæða loðnunnar.“

Illu heilli sé loðnustofninn í mikilli lægð og „líklega ekki hægt að kenna ofveiði þar um heldur umhverfisbreytingum í hafinu.“

Hann vísar í viðtal við sjálfan sig sem birtist í Morgunblaðinu 10. des síðastliðinn:

„Ungloðnan heldur sig í og við pólsjóinn, á síðustu árum í mestum mæli við Austur-Grænland. Fullorðna loðnan fer stöðugt norðar í ætisleit. Sú spurning er áleitin hvort þessi löngu ferðalög loðnunnar eftir æti séu henni um megn. Orkufrek um of og langt að fara á bestu hrygningarslóðina á grunninu í Faxaflóa og Breiðafirði í áliðnum mars þegar vorblóminn í yfirborðssjónum byrjar að sýna sig eftir veturinn. Þessu má raunar líkja við sjófugla. Þó að þeir fljúgi langt eftir síli sjá allir að ef ætisleiðangrarnir eru stuttir aukast líkur á að koma ungum á legg.“

Hann segir að klárlega þurfi að gefa þessum þætti loftslagsbreytinga meiri gaum: „Hafrannsóknir eru um of auðlindastýrðar og beinast einangrað að ákveðnum nytjastofnum, en síður hugað að samhengi og stóru myndinni.  Þarna þarf Hafrannsóknastofnun (Haf og Vatn) að girða sig í brók.“