sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Algjör viðhorfsbreyting stéttarinnar

Guðjón Guðmundsson
22. apríl 2019 kl. 07:00

Sjómönnum er kennt að bregðast rétt við eldsvoða. MYND/ÞORGEIR BALDURSSON

Um 52 þúsund sjómenn notið öryggisfræðslu Slysavarnaskóla sjómanna

Á sjötta tug þúsunda sjómanna hafa sótt námskeið í Slysavarnaskóla sjómanna frá því hann var stofnaður 1985. Á þessum árum hefur orðið algjör viðhorfsbreyting meðal stéttarinnar til öryggismála sem meðal annars hefur skilað sér í mun færri slysum til sjós og í fyrsta sinn frá því skráningar hófust hafa liðið tvö heil ár án þess að sjómaður hafi farist við störf sín. Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, segir ekki margar þjóðir geta státað af tveimur árum í röð án þess að banaslys hafi orðið til sjós.

Á tíu ára tímabili hefur banaslysum á sjó fækkað verulega og árin 2008, 2011, 2014, 2017 og 2018 urðu engin banaslys. Hilmar segir stöðu þessara mála mun vænlegri hér á landi en til dæmis í Noregi. Þó sé samanburðurinn ekki einfaldur því enginn einn aðili heldur utan um banaslysaskrá í Noregi. Ekki sé heldur þar með sagt að allt sé með fullkomnum hætti á Íslandi. Samkvæmt lögum ber að tilkynna slys á sjómönnum til Rannsóknarnefndar samgönguslysa en einungis um 20% þeirra slysa sem verða til sjós eru tilkynnt nefndinni. Nær undantekningarlaust eru þau þó tilkynnt til Sjúkraskrár Íslands sem þó er ekki lagaleg skylda.

Hegðun sjómannsins skiptir sköpum

„Ástæðan fyrir fækkun slysa til sjós er fyrst og fremst sú að íslenskir sjómenn hafa ræktað með sér meiri öryggisvitund. Það er hegðun sjómannsins úti á sjó sem skiptir sköpum í þessu tilliti. Við komum markvissri fræðslu til þeirra. Við höfum líka aðgang að þyrlum og björgunarskipum víða um landið þannig að hjálpin berst skjótt ef eitthvað bjátar á. Jafnframt stuðlar það að auknu öryggi að  veðurfréttir eru nákvæmari. Sumir benda á að skipin séu betri en það fylgir líka alltaf nýjum skipum meiri hætta meðan menn eru að venjast þeim. En það er fyrst og fremst sjómaðurinn sem hefur með góðum árangri nýtt þá þekkingu sem hann hefur öðlast og gera störf hans öruggari,“ segir Hilmar.

Í raun hefur orðið grundvallar viðhorfsbreyting meðal sjómanna hvað öryggismál varðar. Stöðug umræða hefur verið um öryggismál allt frá því Slysavarnaskóli sjómanna var stofnaður og mikilvægi þeirra hefur orðið sjómönnum ljóst.

Vinnustaður á fleygiferð

„Ég man þegar ég var að byrja á sjó 1972 umræðan um öryggismálin á þann veg að ef menn ætluðu að ræða þau um borð í skipunum þá voru þeir spurðir hvort þeir væru hræddir. Þannig var nú viðhorfið. Nú er allt eftirlit orðið mun strangara og þá sérstaklega á kaupskipunum. Kaupskip geta til að mynda lent í svokölluðum hafnarríkisskoðunum og séu öryggismálin ekki í lagi getur það leitt til þess að skipin séu kyrrsett,“ segir Hilmar.

Hilmar segir að vinnuaðstæður sjómanna séu með allt öðrum hætti en flestra annarra starfsstétta. Vinnustaðurinn sé jafnan á fleygiferð og þess vegna þurfi að huga að mörgu. Samvinna til sjós sé einnig mikilvægur þáttur í öryggi sjómanna.

„Í gamla daga stóð karlinn við brúargluggann og öskraði á mannskapinn. Það lá við að það þyrfti að setja á suma fótajárn svo þeir dyttu ekki út um gluggann þegar þeir öskruðu á karlana. Sé farið ennþá lengra aftur í tímann þá eru sögur af því að skipstjórar hafi látið bera þorskhausa upp í brú til sín til þess að grýta þeim í karlana á dekkinu. Þetta eru sem betur fer liðnir tímar því við svona aðstæður verða menn stressaðir og hættan á mistökum eykst. Eftir því sem umhverfið er rólegra og samvinna er betri þá eykst öryggið,“ segir Hilmar.

Hann segir að mikilvægi áhættumats verði seint ofmetið. Það nái til alls skipsins, vinnuumhverfis skipverja og öryggis þeirra. Hann bendir nemendum Slysavarnaskólans jafnan á það að í æsku lærðu þeir að gera áhættumat með því að horfa til hægri og vinstri og síðan aftur til hægri áður en gengið var yfir götu. Þetta þurfi sjómenn að rækta með sér úti á sjó jafnvel þótt engin slysahætta virðist sýnileg. Þetta geti skilið milli lífs og dauða.