sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Algjört hrun grásleppuveiða við Nýfundnaland

22. júní 2009 kl. 12:15

Grásleppuveiðin við Nýfundnaland hefur algjörlega brugðist að þessu sinni. Að sögn Arthurs Bogasonar formanns Landssambands smábátaeigenda mun minnkandi framboð inn á markaðinn af þessum sökum hafa þau áhrif að verð á grásleppuhrognum helst hátt og getur hækkað enn meira, en við slíkar aðstæður er líka alltaf hætta á að skortur á vörunni leiði til þess að markaðir tapist.

Að sögn Arthurs var heildarafraksturinn á vertíðinni á Nýfundnalandi að kvöldi 18. júní aðeins 86 tunnur af grásleppu. Vertíðin í fyrra þótti léleg með afbrigðum, en þá veiddust 3.500 tunnur sem var aðeins 42% af meðalveiði síðustu 10 ára. Veiðin nú er aðeins 2,6% af veiðinni 2008 og rúmt 1% af meðalveiði síðasta áratugar.

Veiðimenn klóra sér í kollinum yfir þessum ósköpum.  Eina skýringin sem þeim dettur í hug er að sjórinn sé of kaldur. Þess sjást reyndar merki á þorskinum. Einhver net eru enn í sjó við Nýfundnaland, en þau eru talin fá litlu breytt héðan af.

,,Við vitum nákvæmlega hvernig náttúruverndarsamtök munu bregðast við þessum fréttum. Þau munu halda því fram að um ofveiði sé að ræða. Það er hins vegar algjör fjarstæða því vertíðin á Nýfundnalandi hefur undanfarin ár varað í 15 daga á hverju svæði þannig að grásleppukarlarnir þar rétt náð að snerta stofninn sem kemur upp að landinu,” sagði Arthur í samtali við Fiskifréttir.

Nýfundnalendingar hafa verið jafnan verið stærsta grásleppuveiðiþjóðin við Norður-Atlantshaf með um 8.000 tunnur af hrognum á ári að meðaltali. Það munar því um minna inn á markað sem talinn er þola 31-32 þús. tunnur. Á síðasta ári voru Íslendingar mesta veiðiþjóðin með 11.700 tunnur og nú í ár nálgast veiðin hér við land 10.000 tunnur.