laugardagur, 28. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Alþjóðahafrannsóknaráðið leggur til þorskkvótaaukningu í Barentshafi

10. júní 2008 kl. 10:54

Barentshafsþorskurinn fær góða einkunn í nýútkominni skýrslu Alþjóðahafrannsóknaráðsins.

Nýting hans er sögð með sjálfbærum hætti og lagt er til að leyft verði að veiða 473.000 tonn á næsta ári sem er 43.000 meira en kvótinn fyrir árið 2008.

Í tillögum Alþjóðahafrannsóknaráðsins fyrir þorskinn í Barentshafi er tekin með í reikninginn áætluð ofveiði upp á 41.000 tonn árið 2007. Aðgerðir til þess að stemma stigu við veiðum utan kvóta í Barentshafi á undanförnum misserum eru taldar hafa borið mikinn árangur því ofveiðin árið 2005 var sögð hafa numið 166.000 tonnum.

Aðallega var um að ræða veiðiskip sem losuðu afla sinn í flutningaskip á miðunum utan við lög og reglur.

Strandþorskurinn, sem er sérstakur stofn við norsku ströndina, er hins vegar ennþá í slæmu ástandi og hrygningarstofninn sá minnsti sem mælst hefur. Lagt er til að engar veiðar verði leyfðar á honum á næsta ári.

Af öðrum helstu fisktegundum í Barentshafi má nefna að ýsustofninn og ufsastofninn eru báðir nýttir á sjálfbæran hátt, að mati Aljóðahafrannsóknaráðsins. Lagt er til að leyft verði að veiða 194.000 tonn af ýsu á næsta ári og 225.000 tonn af ufsa, en það er 22.000 meira en kvóti yfirstandandi árs segir til um.

Karfastofnar við Noreg eru hins vegar í slæmu ástandi og leggst ráðið áfram gegn beinum veiðum á karfa. Þá er lagt til að aðeins verði leyft að veiða 13.000 tonn af grálúðu en aflinn hefur verið 15.000-20.000 tonn á undanförnum árum.

Frá þessu er skýrt á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar.