mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Allir taka höggið beint eða óbeint

svavar hávarðsson
7. mars 2019 kl. 15:55

Brælustopp á loðnuvertíðinni í fyrra - nú bíða áhafnir skipa frétta en nokkur fjöldi skipa er á kolmunnaveiðum við Írland. Mynd/ÓÓS

Sveitarfélög reikna áhrif loðnubrests á þeim tíma sem vertíð ætti að standa sem hæst

Ef allt væri eðlilegt væri loðnufrysting í fullum gangi og vinnsla á loðnuhrognum að hefjast þessa dagana. Skipin ættu dag og dag að sjást að veiðum stutt frá landi við Suður- og Vesturland, þar sem loðnan væri að undirbúa hrygningu. Þess í stað eru fjármálastjórar sveitarfélaga á landsbyggðinni að reikna hversu þungt högg loðnubrestur mun reynast. Fólk og fyrirtæki munu þurfa að afskrifa stóran hluta árstekna sinna. Uppsagnir starfsfólks eru þegar hafnar.

Tvö uppsjávarskip – Polar Amaroq og Ásgrímur Halldórsson – héldu til loðnuleitar á mánudag. Skipin gera næstu daga loka atlögu að því að finna viðbót við þá loðnu sem þegar hafði verið mæld í ítrekuðum rannsóknarleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar með aðkomu útgerðarinnar. Þegar Fiskifréttir fóru í prentun hafði engin viðbót fundist fyrir Suðurlandi, hvar skipin leita, til viðbótar við það sem hafði verið mælt.

Á sama tíma og skipin lögðu úr höfn til leitar sat fjármálastjóri Fjarðabyggðar yfir tölum og dró upp plagg fyrir bæjarráð um þýðingu loðnubrests fyrir sveitarfélagið. Niðurstaðan er kuldaleg.

Áhrif loðnubrests

Í Fjarðabyggð var tekið á móti og unnin um 47% af öllum loðnuafla á árinu 2018 – síðustu fimm árin hefur að meðaltali um 40% af öllum loðnuafla komið þar á land. Mikilvægi loðnuveiða og vinnslu er því gríðarlega mikilvæg fyrir samfélagið fyrir austan.

Megin niðurstaða samantektar fjármálastjóra Fjarðabyggðar er að launatekjur íbúa í Fjarðabyggð munu lækka að óbreyttu um 5% eða 1,25 milljarð króna á árinu 2019 frá fyrra ári. Laun starfsmanna í sjávarútvegi munu lækka um 13% frá fyrra ári miðað við lítt breytta loðnuvertíð á milli ára. Inn í samfélagið mun vanta um 10 milljarða króna í útflutningstekjur. Velta fyrirtækja sem eru beintengd þjónustu við sjávarútvegsfyrirtækin mun lækka um nálægt 600 milljónum króna. Tekjur sveitasjóðs og hafnarsjóðs munu lækka um 260 milljónir króna frá fjárhagsáætlun ársins 2019.

Áhrifin koma fram í flestum þjónustugreinum í Fjarðabyggð; netagerðum, löndunarþjónustu, vélsmiðjum, rafmagns- og rafeindaverkstæðum, verslun og annarri þjónustu.

„Afleiðingar af loðnubrestinum munu því smitast til flestra íbúa í Fjarðabyggð með beinum eða óbeinum hætti. Nú þegar hefur um 15 manns verið sagt upp í Fjarðabyggð vegna loðnubrestsins, í tímabundin störf verður ekki ráðið og líkleg langtímaáhrif munu leiða til frekar fækkunar starfsfólks,“ segir í greinargerðinni en samdrátturinn mun „smitast um samfélagið og koma fram í bjartsýni íbúa og fyrirtækja til fjárfestinga, viðhalds og annarra þjónustukaupa auk áhrifa á fasteignamarkað,“ segir þar jafnframt.

Milljarðar hverfa

Áhrifin verða einnig mikil á Vopnafirði, Fáskrúðsfirði, Höfn í Hornafirði og í Vestmannaeyjum.

Fyrirtæki í Vest­manna­eyj­um ráða yfir um þriðjungi loðnukvótans. Í um­fjöll­un Morgunblaðsins um loðnubrestinn var rætt fyrir skemmstu við Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar og þar benti hann á að miðað við tæp­lega 200 þúsund tonna kvóta og alls 18 millj­arða í út­flutn­ings­tekj­ur, eins og fyr­ir tveim­ur árum, áætl­ar hann að í vasa launa­fólks á land­inu hefðu runnið um 3,3 millj­arðar og um 500 millj­ón­ir í líf­eyr­is­sjóði. Bein­ar tekj­ur rík­is og sveit­ar­fé­laga hefðu alls numið um 3,5 millj­örðum og þá eru ótald­ar veru­leg­ar óbein­ar tekj­ur hins op­in­bera.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir fjármálastjórann vera að meta hvaða áhrif þetta yfirvofandi áfall hefði á bæjarsjóðinn og hafnarsjóðinn.

„Hugmyndir af mótvægisaðgerðir þyrftu að koma frá þeim sem eru í þessum rekstri og í samstarfi við alla hagsmunaðila. Ef það verður loðnubrestur þá erum við farin að huga að því að vera með samráðsvettvang til að fara yfir málið í heild sinni. Vestmannaeyjabær ætlar þá að vera með opinn fund hérna í samvinnu við Þekkingarsetrið, Vinnslustöðina og Ísfélagið, en erum að bíða eftir því hvað gerist.“

Hún segir horfurnar grafalvarlegar, enda voru tekjur Vestmannaeyja um sex milljarðar af loðnuvertíðinni á síðasta ári.

„Þetta hefur áhrif á allt samfélagið hér og þetta er líka alvarlegt gagnvart mörkuðum. En það sem þetta ástand kennir okkur er að við þurfum að fara í það verkefni, til lengri tíma litið, með öðrum sem eru í þessari aðstöðu, að þrýsta á um hærri framlög til Hafrannsóknarstofnunar í rannsóknir á loðnunni. Það vantar meiri upplýsingar, menn vita of lítið um loðnuna.“

Tvöfalt áfall

„Þetta er mikið áfall fyrir bæjarfélagið, og kemur ofan á það hve tvísýnt er með humarinn,“ segir Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri á Höfn í Hornafirði.

Hún segir bæjarráð hafa falið fjármálastjóra að gera greiningu á því hvaða áhrif þetta hefur á reksturinn.

„Ef þetta verður niðurstaðan höfum við miklar áhyggjur, en við þurfum að meta hvaða aðgerðir er hægt að fara í.“

Hún segir að Skinney-Þinganes beri sig nokkuð vel. „Þeir munu alveg standast þetta áhlaup, en við bindum þá vonir við að þetta verði ekki viðvarandi ástand. Svo höfum við að sjálfsögðu ferðaþjónustuna sem er líklegast að verða jafn öflug og sjávarútvegurinn.“

„Þetta er ekki gott ástand,“ segir Þór Steinarsson, sveitarstjóri á Vopnafirði. „Við ætlum að ræða þetta á sveitarstjórnarfundi á fimmtudag.“

Hann segir það vissulega slæmt að engin bolfiskvinnsla sé lengur á Vopnafirði. HB Grandi er með uppsjávarvinnslu á Vopnafirði en lagði fyrir skömmu niður alla bolfiskvinnslu þar

„Það liggur samt alveg fyrir að það eigi að koma með eitthvað í staðinn. Ég held að þeir séu að vinna að því, Grandamenn, þeir hljóta að vilja nota starfsfólkið sitt,“ sagði Þór.