sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Allir verða sjóveikir

Guðsteinn Bjarnason
3. júní 2018 kl. 07:00

Mikill sjógangur kallar fram einkenni sjóveiki fyrstu dagana. MYND/EPA

Margt bendir til þess að sjóveiki eigi þátt í hárri slysatíðni sjómanna. Hannes Petersen læknir kynnti nýverið rannsóknir sínar á sjóveiki.

„Sjómenn verða sjóveikir, sjómenn finna fyrir sjóriðu og sjómenn verða fyrir slysum bæði á sjó og landi,“ sagði Hannes Petersen læknir á alþjóðlegri ráðstefnu um öryggismál sjómanna, sem haldin var 20. apríl síðastliðinn á vegum Slysavarnaskóla sjómanna, Alþjóðasamtaka sjóbjörgunarskóla og samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins.

Þetta er ein af þeim ályktunum sem Hannes dregur af rannsóknum sínum á sjóveiki undanfarin ár.

Hann segir margt benda til þess að sjóveiki eigi þátt í hárri slysatíðni sjómanna, en í könnun sem gerð var um síðustu aldamót sögðust 65 prósent sjómanna hafa orðið fyrir slysi á sjó, og 65 prósent þeirra sögðust sömuleiðis hafa orðið fyrir slysi á landi.

Margvísleg einkenni
Hannes segir algengt að sjómenn segist aldrei verða sjóveikir, en þegar þeir eru spurðir nánar segja þeir gjarnan að í mikilli brælu verði þeir oft svo óskaplega þreyttir.

„Sjóveikin er mönnum voðalega hulin,“ sagði Hannes í erindi sínu, og segir að menn átti sig oft ekki á því að þeir séu sjóveikir af því að þeir telja að menn geti ekki talist sjóveikir nema þeir æli.

Það sé hins vegar misskilningur því sjóveikinni fylgja fjölmörg einkenni, bæði líkamleg og andleg, og mörg þeirra ósjálfráð.

Þar á meðal má nefna ósjálfráð viðbrögð á borð við að púls og blóðþrýstingur hækkar eða lækkar, sviti sprettur út og maður fölnar upp, tekur að finna til ógleði, svima, höfuðverks, syfju og þróttleysis, sinnuleysi gerir vart við sig – og sumir kasta upp.

Þegar þessi einkenni gera vart við sig geta menn farið að eiga í erfiðleikum með að sinna störfum sínum. Þá eykst jafnframt slysahættan.

Meðvirkandi þáttur
Hannes segir að áhugi sinn á sjóveiki hafi vaknað þegar hann starfaði sem læknir í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Hann fór í útköll þar sem hann þurfti meðal annars að sinna sjómönnum sem slasast höfðu við störf sín.

„Ég fór að velta fyrir mér hvort sjóveiki væri hugsanlega meðvirkandi þáttur í slysum þessara einstaklinga,“ sagði hann í erindi sínu.

Þegar nánar er að gáð kemur í ljós að sjóveiki er ein birtingarmynd hreyfiveiki, en sú veiki lætur einnig á sér kræla þegar fólk ferðast í bílum, flugvélum, geimförum eða öðrum farartækjum af ýmsu tagi, og nefnist þá bílveiki, flugveiki og svo framvegis.

Hann las í erindi sínu upp skilgreiningu á hreyfiveiki: „Hvenær sem einstaklingur eykur á hreyfifærni sína með því að ferðast um, óvirkur í einhverju „farartæki“, hvort heldur sem er í lofti, á landi eða á legi þá á hann á hættu að verða hreyfiveikur.“

Boð úr innra eyranu
Rætur hreyfiveikinnar er að finna í innra eyranu, segir Hannes. Þar eru hárfrumur sem nema hverja hreyfingu líkamans og senda jafnóðum boð þar um til miðtaugakerfisins.

Þegar misræmi verður á milli þessara boða frá innra eyranu, sem segja að umhverfið allt sé á fleygiferð, og þess sem augun segja okkur, nefnilega að engin hreyfing sé sjáanleg, þá bregst líkaminn við.

„Allir einstaklingar með virk innri eyru verða sjóveikir ef þeir eru bara útsettir fyrir nógu öflugu áreiti,“ sagði í erindi Hannesar á ráðstefnunni um daginn.

Þegar menn eru vanir hreyfisnauðu umhverfi á landi þurfa þeir tíma til að aðlagast breyttum aðstæðum þegar þeir koma í hreyfiríkt umhverfi úti á sjó.

„Það tekur miðtaugakerfið tvo til fjóra daga að aðlagast þessu hreyfiríka umhverfi,“ sagði Hannes. Þeim mun meiri sem hreyfingin er, þeim mun fljótari eru menn að aðlagast breytingunni.

Reiknar ekki rétt
Hann tók dæmi af manni sem var búinn að vera fjórar vikur í landi, fer svo út á sjó og ölduhæðin er þrír metrar að meðaltali og meðalvindhraði er 8 metrar á sekúndu.

Fyrstu dagarnir á sjó fara í að aðlagast þessu breytta mynstri.

En síðan versnar veðrið og það kemur þriggja daga bræla, ölduhæðin fer í 8 metra og meðalvindhraðinn fer í 16 metra á sekúndu.

Aftur þarf líkaminn að aðlagast breyttum aðstæðum.

Loks eftir fimm daga brælu kemur logn og þá fá menn sjóriðu um borð í skipinu.

„Það þýðir einfaldlega að sjómaður sem búinn er að vera í brælu, hann er útsettur fyrir alls komar uppákomum því hann er ekki að reikna systemið rétt.ׅ“