mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Allt er fertugum fært

11. febrúar 2013 kl. 12:31

Nokkrir skipstjórar á "Stóra Berki" í kaffiveislunni í gær. Talið frá vinstri: Tómas Kárason núv. skipstjóri, Magni Kristjánsson skipstjóri 1976-1989, Sigurjón Valdimarsson skipstjóri 1973-1981 og Sturla Þórðarson skipstjóri 1993-2010. Ljósm. Þórhildur Ei

Rétt 40 ár liðin frá því að Börkur NK kom til landsins en hann hefur veitt 1,5 milljónir tonna.

 

Í gær, 10. febrúar, voru liðin rétt 40 ár síðan „Stóri Börkur“ kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað. Árið 2012 festi fyrirtækið kaup á nýjum Berki NK og fékk „Stóri Börkur“ þá nafnið Birtingur NK. Birtingur NK var gerður út til loðnuveiða á vertíðinni 2012 og hóf á ný veiðar í síðustu viku. 

Frá þessu er skýrt á vef Síldarvinnslunnar. Svo skemmtilega vildi til að í gær kom Birtingur NK til hafnar í Neskaupstað með fyrsta loðnufarm sinn á vertíðinni. Til að fagna því að skipið hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar í 40 ár var gömlum Barkarmönnum boðið til kaffiveislu um borð. Komu allmargir til veislunnar og var þar glatt á hjalla og sögur sagðar frá eldri tíð. 

Allir voru sammála um að útgerðarsaga skipsins væri stórmerk enda hverfandi líkur á að annað skip í íslenska flotanum hafi borið meiri eða jafnmikinn afla að landi (tæplega 1,5 milljón tonn).