miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Allt óbreytt í makrílnum

Guðsteinn Bjarnason
25. október 2019 kl. 15:30

Makríll og síld (Mynd: Óðinn Magnason)

Strandríkjaviðræður um uppsjávarstofnana er að ljúka í London en þær hafa staðið yfir undanfarnar tvær vikur.

Í síðustu viku var gengið frá samkomulagi um makrílinn og nú er einnig búið að semja kolmunna og síld.

„Það er allt óbreytt í makrílnum,“ sagði Kristján Freyr Helgason, sérfræðingur í utanríkisráðuneytinu, en hann er aðalsamningamaður Íslands í þessum viðræðum.

Niðurstaðan varð nokkurn veginn sú sama og undanfarin ár. Fulltrúar Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja gerðu með sér samning um makrílveiðar, en hvorki Íslendingar, Grænlendingar né Rússar fengu aðild að þeim samningi frekar en undanfarin ár.

Fiskebåt, samtök norskra útgerðarmanna, greindu frá því að makrílkvóti ársins 2020 verði 922 þúsund tonn. Þetta er í samræmi við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðið.

„Það felur í sér 40 prósenta aukningu í kvóta fyrir norska sjómenn,“ segir Fiskebåt.

Íslendingum, Grænlendingum og Rússum er ætlað samtals 15,6 prósent af þessum 922 þúsund tonnum, sem er töluvert undir þeim kröfum sem þessar þjóðir gera.

Íslendingar hafa í samningaviðræðum lengi lagt áherslu á að fá 16,5 prósent kvótans, og er þá miðað við veiðireynslu Íslendinga eftir að makríllinn tók að veiðast hér í verulegu magni.

Áður hefur komið fram að Íslendingar gætu vel sætt sig við minna, en þó ekki þau fáu prósent sem samningsaðilarnir hafa verið tilbúnir til að bjóða.

Hvað síldina og kolmunnann varðar þá náðist samkomulag milli Noregs, Íslands, Færeyja og Evrópusambandsins um að veidd verði 1.162 þúsund tonn af kolmunna á árinu 2020, sem er lítilsháttar aukning, og 526 þúsund tonn af síld, sem er heldur minna en frá síðasta samkomulagi sem gerði ráð fyrir að veidd yrðu 589 þúsund tonn á árinu 2019.

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hækkaði í haust verulega ráðgjöf fyrir makrílveiðar en reiknar engu að síður með ofveiði áfram úr stofninum.

„Samkvæmt stofnmati stækkaði hrygningarstofninn frá 2007, náði hámarki 2014 en hefur farið minnkandi síðan,“ segir í ráðgjöfinni.

Makrílveiðar á Norðaustur-Atlantshafi misstu MSC-vottun snemma árs vegna mikillar ofveiði undanfarin ár, og flest bendir reyndar til að veiðar á kolmunna og norsk-íslensku síldinni missi hana síðar í vetur.