sunnudagur, 17. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Allur flotinn kominn í Smuguna

Gudjon Gudmundsson
30. júlí 2020 kl. 13:08

Ómar Sigurðsson, skipsjtóri á Aðalsteini Jónssyni SU. Mynd/Þorgeir Baldursson

Aðalsteinn Jónsson SU landaði 1.000 tonnum af makríl

Uppsjávarskipaflotinn hefur undanfarna daga verið við makrílveiðar í Síldarsmugunni rúmar 300 sjómílur út af Austfjörðum. Aðalsteinn Jónsson SU var á landleið með 975 tonn sem fengust í nokkrum hollum og önnur skip voru að fá afla en ekki var hægt að tala um mikla kraftveiði. Ómar Sigurðsson skipstjóri á Aðalsteini Jónssyni, segir óvenjusnemmt að flotinn sé byrjaður veiðum í Síldarsmugunni. En engin makrílvertíð sé eins og nú hafi makríllinn einfaldlega ekki gengið í miklu magni inn á Íslandsmið, hvað sem síðar verði.

Hlynur Ársælsson, rekstrarstjóri uppsjávarfrystihúss Eskju, segir veiðina hafa verið dræma og aflann alltof síldarblandaðan. Hann segir að væri miðað við venjulegt árferði sé flotinn mjög snemma á ferðinni í Síldarsmugunni.

Engin vertíð eins

„Mér finnst engin makrílvertíð vera eins. Kannski er makríllinn seinna á ferðinni á Íslandsmiðum þetta árið. Rússarnir hafa líka verið að veiða makríl í Smugunni þótt Íslendingar hafi verið við veiðar við Ísland. Einhver hluti göngunnar hefur komið hingað til Íslands og við höfðum verið að moðast í þessu með misjöfnum árangri. Það var ákveðin tilraun að fara í Smuguna núna,“ segir Hlynur.

Aðalsteinn Jónsson fékk sín tæpu 1.000 tonn á tveimur sólarhringum en stímið í Smuguna tekur hátt í sólarhring. Eskja, sem á eitt fullkomnasta uppsjávarhús í heimi, hefur á þessari vertíð fryst um 4.000 tonn af makríl. Það er langt frá því að það sé rekið á fullum afköstum. Vandræði hefur verið með síld í aflanum sérstaklega á heimamiðum þar sem kvótastaðan í íslensku síldinni hefur verið tæpur.

„Í fyrra hrökk veiðin í gang og var myljandi veiði. Þá var ekki í svona miklum mæli að þvælast fyrir okkur. Ég fer að verða stressaður ef veiðin verður ekki rokin í gang um verslunarmannahelgina.“

Meðalvigt 540 grömm

Aðalsteinn Jónsson SU átti nokkrar klukkustundir eftir til hafnar þegar náðist í Ómar Sigurðsson skipstjóra. Hann sagði að það hefði almennt verið mjög rólegt yfir veiðunum í Smugunnni.

„Við fengum reyndar eitt gott hol, um 420 tonn, en svo minna eftir það í nokkrum næstu holum. Makríllinn er hérna á fleygiferið út um alla Smugu og étur í kapp við tímann. Við erum reyndar snemma á ferðinni hérna í Smugunni. Við fórum upp úr miðjum ágúst í fyrra en það virðist bara vera mun minni makríll á heimamiðum. Hann nær ekki að þjappa sér nóg til þess að vera veiðanlegur.“

Ómar segir makrílinn sem fékkst stóran og meðalvigtina vera 540 grömm og mun stærri en hann var á þessum slóðum í fyrra. Hann reiknaði með því að farið yrði aftur Smuguna þegar búið væri að landa. Hann sagði að flotinn væri nánast allur kominn þangað. Menn hefðu verið að fá kropp, 100-200 tonn í holi og þaðan af minna. Menn eru mikið að leita á svæðinu en það vanti allan kraft í veiðarnar.