föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Almenningshlutafélag stofnað um fiskvinnslu í Súðavík

29. nóvember 2013 kl. 13:06

Súðavík. MYND/MATS WIBE LUND

Þessi áform eru niðurstaða vinnu í kringum úthlutun byggðakvóta

Stofnfundur einkahlutafélags um bolfiskvinnslu í Súðavík verður haldinn á sunnudag, en fyrirhugað er að félagið leigi aðstöðu við Njarðarbraut 14 í Súðavík og starfræki þar fiskvinnslu. Ætlunin er að eignarhald félagsins verði dreift, en lögaðilar og lögráða einstaklingar skráðir í Súðavíkurhreppi geta skráð sig fyrir hlut í félaginu. Hver hlutur verður 10.000 krónur að nafnvirði, en ekki verður hægt að kaupa fleiri en sjö hluti. Þá kemur fram í fundarboði að samþykktir félagsins muni tryggja jafnan atkvæðisrétt á fundum félagsins. Það má því segja að um sannkallað almenningshlutafélag verði að ræða. Þetta kemur fram á bb.is

Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, segir í samtali við bb.is að þessi áform séu niðurstaða vinnu í kringum úthlutun byggðakvóta, en Súðavík hefur yfir að ráða um 200 tonnum af byggðakvóta á þessu fiskveiðiári. „Sveitarstjórnin hefur farið yfir þessi mál, og telur að samfélagið geti gert betur í að nýta þennan úthlutaða byggðakvóta en hefur verið. Undanfarnar vikur höfum við velt fyrir okkur ýmsum leiðum sem hafa það að markmiði að koma á meiri samvinnu aðila og skjóta styrkari stoðum undir það að við nýtum byggðakvóta á þann hátt sem best kemur samfélaginu.“ 

„Þetta er sú niðurstaða sem sveitarfélagið hefur markað sér, og beiðni um sérreglur um úthlutun byggðakvóta var liður í þeirri vinnu að stofna hér almenningshlutafélag um fiskvinnslu. Samhliða þessari leið köllum við eftir víðtæku samstarfi við útgerðaraðila og aðra hagsmunaaðila hér á svæðinu um þetta verkefni, og sveitarstjórn mun horfa svo á að þeir sem sæki um byggðakvóta til Súðavíkur á yfirstandandi fiskveiðiári muni á sama tíma skuldbinda sig til að landa til vinnslu hjá þessu nýstofnaða félagi. Markmiðið er að skapa forsendur til frekari samvinnu, og leggja áherslu á að samfélagið fái sem mest út úr úthlutuðum byggðakvóta og þeim afla sem hér berst að landi. Liður í því er að starfrækja fiskvinnslu í Súðavík allt árið um kring.“ Segir ennfremu á bb.is.

Stofnfundur Fiskvinnslu Súðavíkur ehf. verður haldinn á veitingastaðnum Jóni Indíafara í Súðavík á sunnudag, 1. desember, en fundurinn hefst kl. 14:00.