sunnudagur, 12. júlí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Á annað þúsund manns á Sjávarútvegsráðstefnuna

16. nóvember 2017 kl. 14:00

Hrefna Karlsdóttir, formaður stjórnar Sjávarútvegsráðstefnunnar.

Fjölhæfni einkennir málstofurnarMargir hafa lagt hönd á plóg við skipulagningu Sjávarútvegsráðstefnunnar 2017. Hrefna Karlsdóttir, sérfræðingur hjá  Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, er formaður stjórnar Sjávarútvegsráðstefnunnar. Hún segir ráðstefnuna mikilvæga fyrir alla þá sem starfa innan greinarinnar og auk þess vettvangur til að efla tengslanetið.


Alls sóttu um 800 manns ráðstefnuna þegar hún var haldin í fyrsta sinn í Hörpu í fyrra og gera má ráð fyrir svipuðum fjölda í ár.

Hrefna settist í stjórn Sjávarútvegsráðstefnunnar fyrir tveimur árum og er formaður stjórnar þetta árið. Alls eru átta í stjórn ráðstefnunnar hvaðanæva að úr sjávarútvegi og á tveggja ára fresti er stjórnin endurnýjuð.

„Það er breidd í Sjávarútvegsráðstefnunni. Hana sækja fulltrúar sölu- og markaðsfyrirtækja, útgerða, fiskeldis, frumvinnslu, framhaldsvinnslu en einnig opinberir aðilar, kennarar og nemendur, fjölmiðlar og aðrir áhugamenn,“ segir Hrefna.

Aðsókn aukist með hverju ári

Sjávarútvegsráðstefnan var haldin í fyrsta sinn árið 2010 og hefur verið haldin á hverju ári síðan. Lengst af var hún á Grand hótel en í fyrra og að þessu sinni verður hún í Hörpu. Aðsókn hefur aukist með hverju ári og náði metfjölda í fyrra þegar 800 manns skráðu sig.

„Að þessu sinni verða ávalt þrjár málstofur í gangi á sama tíma en við gætum þess að umfjöllunarefnið sé ekki skylt. Opnunarmálstofan verður hins vegar stök sem og lokamálstofan. Það er ekkert eitt sem einkennir ráðstefnuna nema þá helst fjölbreytnin. Vert er að benda á málstofu um markaðsmál og um upplýsingartækni og hvernig hún nýtist í sjávarútvegi. Einnig verður fjallað um gæðamál,  rannsóknir og nýsköpun svo fátt eitt sé nefnt. Fjölbreytnin er mikil og það ættu allir að geta fundið eitthvað við hæfi,“ segir Hrefna.

Hrefna segir að þó nokkrir erlendir fyrirlesarar komi fram, meðal annars í málstofum um markaðsmál og veiðigjöld.

 

„Sjávarútvegsráðstefnan skiptir miklu máli. Hún er upplýsandi um það sem er að gerast í greininni hverju sinni, jafnt í veiðum og vinnslu, nýsköpunargreinum, tæknigreinum og markaðsmálum. Auk þess er það ekki síður mikilvægt að ráðstefnan er vettvangur fyrir þá sem starfa innan sjávarútvegs og tengdum greinum að hittast og efla sín tengslanet. Á ráðstefnunni sækja menn sér þekkingu, taka þátt í umræðum og þetta er staðurinn til þess að efla tengslanetið og hittast.“