þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Annríki hjá Gæslunni vegna norsku loðnuskipanna

11. febrúar 2016 kl. 12:45

Sjúkraflutningamenn í áhöfn Þórs fóru um borð til að meta ástand sjúklingsins í norska loðnuskipinu. (Mynd af vef LHG)

Sem stendur eru 30 skip innan lögsögunnar en 25 mega stunda veiðar í einu.

Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar, sem jafnframt er sameiginleg eftirlitsstöð Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu með tilliti til fiskveiða, hafa í nógu að snúast meðan loðnuveiðar erlendra skipa standa yfir í íslensku efnahagslögsögunni.

Sem stendur eru 30 norsk loðnuveiðiskip innan lögsögunnar en einungis 25 þeirra mega vera að veiðum í einu. Norsku loðnuskipin sem fara í höfn á Íslandi til löndunar verða að bíða þar til röðin kemur aftur að þeim að verða eitt af þeim 25 skipum sem hafa heimild til veiðanna. Þessu stýra varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar en auk þess fylgjast þeir með því að afla- og athafnaskeyti skipanna og heimildir til löndunar á Íslandi séu í samræmi við milliríkjasamninga fiskveiðiþjóða við Norðaustanvert Atlantshaf.

Til viðbótar þurfa erlend fiskiskip að senda komutilkynningar með ákveðnum fyrirvara vegna landamæraeftirlits og hefur stjórnstöð Landhelgisgæslunnar eftirlit með því.

Alls hafa 59 norsk loðnuskip komið til veiða við Ísland á þessari vertíð sem stendur yfir til og með 22. febrúar hvað Norðmenn varðar. Alls hafa norsku skipin veitt 25.379 tonn af 45.000 tonna kvótaheimild. Auk þess hafa Norðmenn aðgang að hluta af kvóta Grænlendinga. Auk norsku skipanna hefur eitt grænlenskt skip verið við veiðarnar og tvö færeysk. Það saxast rólegar á kvóta Grænlendinga og Færeyinga en skip þeirra hafa heimild til að stunda veiðarnar til 30.apríl nk.

Sjá nánar á vef Gæslunnar.