miðvikudagur, 11. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ansjósan verðmætari sem hráefni til manneldisvinnslu

15. nóvember 2013 kl. 09:54

Ansjósa

Um einn þriðji af framboði á fiskimjöli í heiminum er mjöl unnið úr ansjósum

Ansjósan við Perú er ekki best nýtt sem hráefni til framleiðslu á fiskimjöli heldur er hún miklu verðmætari sem fæða fyrir fólk og sem hluti af fæðukeðju sjávar, að því er fram kemur í niðurstöðum rannsókna kanadískra og perúískra vísindamanna. Frá þessu er greint í frétt á fis.com.

Asjósustofninn við Perú er stærsti nytjastofn í heimi. Árleg veiði nemur fimm til tíu milljónum tonna. Um einn þriðji af framboði á fiskimjöli í heiminum er mjöl unnið úr ansjósum.  

Rannsóknin er gerð á vegum University of British Columbia Fisheries Centre í samstarfi við vísindamenn í Perú. Bent er á að ansjósur séu allt upp í 80% af lönduðum afla í Perú í tonnum talið en skapi aðeins 31% af tekjum í sjávarútvegi og tengdum greinum. Heildartekjur af ansjósuveiðum og vinnslu séu um 1,1 milljarður dollara (134 milljarðar ISK) á ári. Hins vegar skapi veiðar minni báta á ýmsum fisktegundum, sölkerfi aflans innanlands og veitingastaðir um 2,4 milljarða dollara á ári (293 milljarða ISK), eða 69% af heildartekjunum.

Í Perú er aðeins leyft að selja ansjósur til manneldis sem veiddar eru á minni bátum. Stærri bátar, sem veiða megnið af ansjósunni, verða að landa henni í bræðslu. Fulltrúi umhverfisstofnunar við Cayetano Heredia háskólann í Perú segir að þessu þurfi að breyta þannig að unnt sé að nýta ansjósur meira í framleiðslu á afurðum til manneldis.