fimmtudagur, 13. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ansjósukvótinn í Perú eykst um 23% á fyrra veiðitímabili

22. apríl 2014 kl. 16:00

Ansjósa

Veiðunum flýtt vegna hugsanlegra El Nino áhrifa.

 

Ansjósukvótinn fyrir fyrra veiðitímabil ársins í Perú hefur verið ákveðinn um 2,5 milljónir tonna. Þetta er um 23% aukning frá síðasta ári en samt er kvótinn minni en á sama tímabili árin 2012 og 2011, að því er kemur fram á vefnum undercurrentnews.com.

Kvótinn á fyrra veiðitímabili á síðasta ári var rétt rúmar 2 milljónir tonna sem var 34% samdráttur frá árinu 2012. Þess má geta að á fyrra veiðitímabili 2011 var kvótinn um 3,7 milljónir tonna. Heildarkvóti ansjósu í Perú árið 2011 var tæp 6,2 milljónir tonna. Hann var kominn niður í 3,6 milljónir árið 2012 en jókst í 4,4 milljónir árið 2013. Óvíst er hver heildarkvótinn verður í ár.

Veiðitímabil á ansjósu í Perú eru tvö og hefst seinna tímabilið vanalega í nóvember og stendur fram í janúar. Kvóti er gefinn út sérstaklega fyrir hvort tímabil. Gríðarlegur niðurskurður á seinna veiðitímabilinu 2012 varð síðan sérstaklega erfiður fyrir fiskimjölsiðnaðinn í Perú. Framleiðslan dróst verulega saman og heildartap greinarinnar var um 87 milljónir dollara (um 9,7 milljarðar ISK).

Skiptar skoðanir eru meðal vísindamanna hvort og hve mikil áhrif veðurfyrirbærið El Nino muni hafa á ansjósuveiðar Perúmanna í ár. Sumir þeirra óttast að El Nino valdi mikilum skaða en aðrir tala um að litlar líkur séu á því.

Hvað sem því líður vilja stjórnvöld í Perú hafa vaðið fyrir neðan sig og hafa heimilað að veiðar á fyrra tímabili hefjist strax 23. apríl en ekki um miðjan maí eins og venjulega. Er það gert vegna hugsanlegra áhrifa frá El Nino.