föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Árangurslaus ráðherrafundur um makríl

3. september 2012 kl. 18:24

Steingrímur J. Sigfússon

Samningaumleitanir halda áfram á reglulegum fundi strandríkjanna í haust.

Fundur Steingríms J. Sigfússonar atvinnu- og nýsköpunarráðherra með sjávarútvegsráðherra Noregs og sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins vegna makríldeilunnar bar ekki árangur. 

Fundinum lauk í Lundúnum nú síðdegis. Steingrímur sagði í samtali við fréttastofu RÚV að menn hefðu horfst í augu við það í lok dags að enn bæri of mikið í milli, en vildi ekki segja nánar um hver munurinn væri. Hann sagði þó að Íslendingar hefðu lagt áherslu á að efla rannsóknir á stofninum.

„Við reyndum fyrir okkar leyti að leggja af mörkum til þess með uppbyggilegum hætti að menn gætu þokað málinu eitthvað áfram en í aðalatriðum sat það fast,“ segir Steingrímur í samtali við útvarpið. 

Íslendingar hafa krafist 15 til 17% hlutdeildar í makrílkvótanum á Norðaustur-Atlantshafi, en Evrópusambandið og Norðmenn hafa viljað mun minni hlutdeild Íslendingum til handa.

Steingrímur sagði að því hefði verið komið vel til skila að athuganir sýndu að makrílstofninn hefði styrkst og að mikið af honum gengi í íslenska lögsögu. Það hafi ekki bætt uppskeruna af þessum fundi og mjög lítið þokist í samkomulagsátt. Steingrímur segir að Íslendingar hafi verið tilbúnir að skoða að minnka sína hlutdeild gegn aðgangi að lögsögum annarra ríkja, en ekki sé grundvöllur til að halda áfram á þeim nótum.

„Á meðan einn og jafnvel tveir aðilar eru ekki tilbúnir til að leggja neitt af mörkum þá gengur þetta lítið,“ sagði Steingrímur, og átti þar við Norðmenn og Evrópusambandið.

Samningaumleitanir halda nú áfram á reglulegum fundi strandríkjanna sem verður síðar í haust.