þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Árangurslaus síldarfundur

9. júní 2015 kl. 12:27

Síld

Í dag hefst strandríkjafundur um kolmunnann.

Ekkert heildarsamkomulag er um kvótaskiptingu þriggja mikilvægra uppsjávarstofna í NA-Atlantshafi, kolmunna, norsk-íslenskrar síldar og makríls og ekki útlit fyrir að það náist í bráð, þrátt fyrir ítrekuð fundarhöld.

Í dag hófust í Edinborg í Skotlandi viðræður fulltrúa strandríkjanna um skiptingu kolmunnakvótans. Ekki er deilt um það hver heildarkvótinn skuli vera, samkomulag er um 1.260 þúsund tonn. Hins vegar er deilt um skiptingu kvótans milli ríkjanna. 

Í síðustu viku var haldinn í London enn einn strandríkjafundurinn um norsk-íslensku síldina en meira bil var milli sjónarmiða ríkjanna en hægt var að brúa og verður þráðurinn því tekinn upp að nýju seinna á árinu.

Frá þessu er skýrt á vef færeyska útvarpsins, en Færeyingar hafa verið í forsæti á þessum fundum. 

Loks skortir heildarsamning um makríl vegna þess að Íslendingar sættust ekki á þá kvótaskiptingu sem hinar þjóðirnar urðu sammála um á síðasta ári.