laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Arctic Fish hlýtur umhverfisvottun ASC

17. maí 2016 kl. 16:11

Sjókví hjá Artic Fish

Fyrsta eldisfyrirtækið hér á landi til að hljóta vottunina

Fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish hefur hlotið eftirsótta alþjóðlega umhverfisvottun Aquaculture Stewardship Council (ASC), fyrst íslenskra fyrirtækja, að því er fram kemur í frétt frá Arctic Fish.

Stjórnendur og starfsfólk Arctic Fish og dótturfélaga þess, seiðaeldisins Arctic Smolt á Tálknafirði, sjóeldisstöðvarinnar Arctic Sea Farm (Dýrfiskur) í Dýrafirði og vinnslufyrirtækisins Arctic Odda á Flateyri, hafa unnið að því undanfarin ár að undirbúa og uppfylla kröfur umhverfisstaðalsins sem vottunin byggir á og var hún staðfest af stjórn ASC í síðustu viku.

Vottun ASC er hliðstæð alþjóðastaðlinum MSC en ASC er frábrugðinn að því leyti að hann hefur verið aðlagaður sérstaklega að eldisafurðum.

Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish, segir umhverfisaðstæður á Vestfjörðum með hreinan sjó, lágt hitastig, lítinn þéttleika í kvíum hindra viðgang sjúkdóma og því sé engin lyfjanotkun í eldi félagsins ólíkt því sem getur gerist í heitari sjó. „Vottun ASC er staðfesting á þeim árangri sem við höfum náð og vottunin mun án efa hjálpa okkur í frekari sókn á erlendum mörkuðum þar sem kröfuharðir neytendur með mikla umhverfisvitund líta til afurða á borð við þær sem við framleiðum. Sá markhópur fer sífellt stækkandi og hann er tilbúinn til að greiða hærra verð fyrir vottaðar afurðir,“ segir Sigurður. 

Arctic Fish hóf starfsemi sína í silungseldi undir nafni Dýrfisks í Dýrafirði árið 2011. Þar er fyrirtækið enn með meginstarfsemi sjóeldisins sem nú er rekið undir nafni Arctic Sea Farm. Verið er að byggja upp nýja og fullkomna seiðaeldisstöð hjá systurfélaginu Arctic Smolt í Tálknafirði og er móðurfélagið einnig að undirbúa frekari vöxt, m.a. í laxeldi, sem gert er ráð fyrir  að verði meginsvið félagsins í framtíðinni í stað silungseldisins þar sem aðaláherslan hefur legið hingað til. Fyrsta skrefið í laxeldi Arctic Fish verður stigið í haust þegar fyrstu laxaseiðin verða sett út og verða þau framleidd í samræmi við umhverfisstaðla ASC.