þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Arnarfjörður: Leggja til 500 tonna veiði á innfjarðarrækju

30. október 2008 kl. 12:45

„Rækjustofninn í Arnarfirði hefur náð sér verulega á strik og lagt er til að leyfðar verði veiðar á 500 tonnum í vetur. Heimilt var að veiða 150 tonn síðastliðinn vetur en langtímameðaltal rækjuveiða í Arnarfirði er um 650 tonn,“ sagði Unnur Skúladóttir fiskifræðingur í samtali við Fiskifréttir, sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag, er rætt var við hana um helstu niðurstöður úr mælingum á innfjarðarrækju sem nú er nýlokið.   Vísitala stofnstærðar rækju í Arnarfirði hefur aukist mikið frá því í fyrra. Nýliðun mældist ágæt og þarna er rækja á aldursbilinu frá 2ja til 6 ára og jafnvel eldri.

Útbreiðsla rækju er einnig miklu betri en áður. Fram kom hjá Unni að í Ísafjarðardjúpi hefði vísitala rækju mælst miklu minni en í fyrra en þá var hún á uppleið.

Mikið fannst af ýsu og lýsu í Djúpinu. Ýsan er yfir meðaltali á öllum svæðum nema á Skjálfanda. Hins vegar fannst minna af þorski en undanfarin ár.   Aðeins fannst vottur af rækju í Húnaflóa og Skagafirði en rækjustofninn í Skjálfandaflóa er á hægri uppleið.

„Ég bind vonir við að rækjustofninn þar gæti vaxið eitthvað á næstu árum. Í Öxarfirði fannst aðeins meira af rækju en í fyrra en stofninn þar er áfram í mikilli lægð,“ sagði Unnur.   Samkvæmt fyrstu niðurstöðum um fjölda þorskseiða sem veiddust í rækjuleiðangrinum þá virðist 2008 árgangur slakur og svipaður og árgangurinn 2007. Fyrstu merki um 2008 árgang í ýsu benda til að sá árgangur sé yfir meðaltali á grunnslóð.