mánudagur, 30. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ASÍ leggst gegn samþykkt fiskveiðifrumvarpsins

25. ágúst 2011 kl. 13:04

Úr fiskvinnslu (Mynd: HAG)

Er fylgjandi hækkun veiðileyfagjalds og tímabundnum nýtingarrétti en telur aðra þætti of gallaða.

Í umsögn Alþýðusambands Íslands um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða sem sent hefur verið sjávarútvegsnefnd er lagst gegn því að frumvarpið verði samþykkt í núverandi mynd.

ASÍ tekur undir hækkun veiðileyfagjaldsins og tímabundinn nýtingarétt af auðlindinni en telur aðra þætti frumvarpsins of gallaða til að hægt sé að mæla með samþykkt þess.

Samtökin telja nýtingarréttinn alltof skamman. Óskynsamlegt sé að takmarka varanlegt framsal aflaheimilda eins mikið og lagt er til í frumvarpinu. Bann við veðsetningu muni skerða aðgang fyrirtækja að lánsfjármagni og hækka vaxtaálagið til þeirra. Pottafyrirkomulagið muni auka óhagkvæmni í greininni. Ráðherra séu fengin alltof mikil völd til þess að ráðstafa nýtingarleyfum.

Hins vegar telur ASÍ að þær takmarkanir sem lagðar eru til í frumvarpinu á leiguframsali gangi ekki nægilega langt.

ASÍ er sammála því að breyta þurfi fiskveiðistjórnunarkerfinu en telur nauðsynlegt að vinna málið betur og í víðtæku samráði.

Sjá nánar umsögnina á vef ASÍ.