laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ástralir banna risatogarann áfram

26. febrúar 2013 kl. 14:48

Risatogarinn umdeildi

Fær ekki að frysta afla annarra skipa.

 

Það ætlar að ganga erfiðlega fyrir útgerð hollenska risatogarans Abel Tasman að fá að athafna sig í lögsögu Ástralíu þrátt fyrir að sjávarútvegsráðuneyti landsins hafi í upphafi úthlutað henni 18.000 tonna kvóta af makríltegundinni hrossastirtlu. 

Leyfisveitingin var byggð á vísindalegri ráðgjöf en umhverfisráðherra Ástralíu var ekki sama sinnis og starfsbróðir hans í sjávarútvegsráðuneytinu og beitti sér fyrir löggjöf sem gerði honum kleift að koma í veg fyrir veiðar skipsins þar til frekari vísindarannsóknir hefðu verið gerðar á áhrifum veiðanna á lífríkið. Samkvæmt lögunum getur slík athugun tekið allt að tvö ár. 

Útgerð skipsins vildi þá nýta það til þess að vinna afla annarra skipa en nú hefur umhverfisráðherrann fyrirskipað tveggja mánaða bann við því meðan málið sé skoðað. 

Almennt séð virðist rótgróin tortryggni í garð svona stórs veiðiskips ráða miklu um afstöðu ráðherrans því hann segist taka mið af því að fólk hafi áhyggjur af umhverfislegum, þjóðfélagslegum og efnahagslegum áhrifum fiskiskips af þessari stærð. 

Hinn umdeildi verksmiðjutogari er annað stærst skip sinnar tegundar í heiminum. Það er 9.500 brúttótonn að stærð og 142 metrar að lengd. Skipið getur unnið og fryst meira en 240 tonn á dag og hefur frystilestar fyrir 6.200 tonn