fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Átak í neyslu ungs fólks á fiski

10. júní 2015 kl. 10:15

Laxaflak

Norðmenn setja peninga í verkefnið

Norska ríkisstjórnin hefur veitt 4 milljónum norskra króna, um 68 milljónum ÍSK, til verkefnis sem snýst um það að kenna börnum að elda fisk og að meta hann að verðleikum.

„Ég vona að þessir peningar leiði til þess að sjávarfang verði oftar á boðstólum ungs fólks,“ segir Elisabeth Aspaker, sjávarútvegsráðherra Noregs.

Norðmenn eru ein af stærstu fiskframleiðsluþjóðum heims en norskur ungdómur er, eins og víða annars staðar, almennt fremur tregur til að leggja sér fisk til munns.

„Málið er einfalt. Við borðum ekki nægilega mikinn fisk,“ segir Aspaker.

Ungu fólki verður kennt að það er fljótlegt og auðvelt að matreiða fisk og uppskriftirnar eru óþrjótandi. Ennfremur verður þeim skilaboðum komið á framfæri að fiskur er kjörfæða fyrir líkama og huga.

Útgangspunktur átaksins er sú staðreynd að fólk hneigist almennt frekar til þess matar sem það hefur fengið í æsku sem gefur til kynna að árangursríkt geti verið að venja neytendur við sjávarfang snemma á lífsleiðinni.

 

Þær leiðir sem mælt er með til að fá börn til að borða fisk eru að elda með þeim matinn og snæða hann saman, gera útlit matarins meira spennandi, nýta einungis úrvalshráefni, nota heiti fisksins í hvert sinn sem eldað er, svo sem lax, þorskur, rauðspretta eða steinbítur. Þannig eiga börn auðveldara með að ákveða hvað þeim fellur best í geð.