mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Atferli háhyrninga við Ísland

21. janúar 2014 kl. 11:59

Háhyrningur í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi.

Rannsóknarverkefni sem miðar að betri skilningi á íslenska háhyrningastofninum.

Í málstofu Hafrannsóknastofnunar næstkomandi fimmtudag flytur Filippa Samara erindi sem hann nefnir Atferli háhyrninga við Ísland.

Þar segir hann frá rannsóknarverkefni sem miðar að betri skilningi á íslenska háhyrningastofninum og beinist sérstaklega að atferli fæðunáms og félagstengsla. Gagnasöfnun fer fram að vetri og sumri með það markmið að rannsaka breytileika á hegðun háhyrninganna sem tengst gæti afráni þeirra á síld á vetrar- og hrigningarstöðvum hennar. Ljósmyndagreining er notuð til að þekkja einstaklingana og fylgjast þannig með ferðum þeirra, t.d. hvort þeir hafi sérhæft sig í síldaráti og fylgi síldargöngum allt árið. 

Hljóðupptökur eru framkvæmdar á mismunandi árstímum í þeim tilgangi að rannsaka árstíðabundinn breytileika í fæðuatferli, t.d. tíðni smölunarhljóða. Niðurstöður þessara rannsóknaaðferða eru svo samtvinnaðar merkingum háhyrninga með sérstökum merkjum ( “multi-sensor tags” ) sem skrá atferli hvalanna og fjölgeislamæli (“multi-beam sonar”) sem gera kleift að rannsaka hvernig atferli bráðarinnar (síldar) getur haft áhrif á veiðiaðferðir háhyrninganna. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir rannsóknaverkefninu og frumniðurstöður kynntar.

Erindið er haldið í húsakynnum Hafrannsóknastofnunar á Skúlagötu 4 og hefst klukkan 12,30. 

Sjá nánar á vef Hafrannsóknastofnunar.