föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Átján langreyðar veiddar

30. júní 2009 kl. 12:08

forstjóri Hvals kvartar undan neikvæðri umræðu í íslenskum fjölmiðlum

,,Veiðarnar hafa gengið vel fram að þessu. Það eru komnar 14 langreyðar á land og fjórar eru á leiðinni,” sagði Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf. þegar Fiskifréttir höfðu samband við hann skömmu fyrir hádegi í dag.

Hvalur 9 hóf veiðarnar og landaði fyrstu langreyðunum 20. júní. Nú hefur annar hvalbátur, Hvalur 8, bæst við en hann hélt á veiðar síðastliðinn fimmtudag.

Kristján sagði að veiðarnar gengju samkvæmt áætlun þótt þoka og slæmt skyggni hefði verið dálítið til trafala. Veitt er á hefðbundnum hvalamiðum vestan við landið um 160-170 mílur frá Hvalfirði.

Kristján kvaðst vera ósáttur við umfjöllun íslenskra fjölmiðla um hvalveiðarnar. Tilhneigingin væri sú að reyna að draga fram neikvæða hlið á þeim þótt engar forsendur væru fyrir því. Þá væri sjónarmiðum erlendra umhverfissinna gert óeðlilega hátt undir höfði.

,,Allir íslensku fjölmiðlarnir voru til dæmis uppfullir af því að Íslendingar myndu fá yfir sig skít og skömm á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins nú á dögunum vegna hvalveiðanna, en svo kom í ljós að ekki var einu einasta orði vikið að veiðum okkar á fundinum. Erlendir fjölmiðlar hafa heldur ekki haft neinn áhuga á að fjalla um þessar veiðar. Hins vegar sýna íslenskir fjölmiðlamenn ótrúlega hjarðhegðun með því að elta hver annan á þessari braut,” sagði Kristján Loftsson.