þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Átök við annan menningarheim

Guðjón Guðmundsson
9. maí 2018 kl. 12:00

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. MYND/ÓSKAR P. FRIÐRIKSSON

Tveggja ára töf á afhendingu systurskipanna Breka og Páli Pálssyni

„Traust er gott en eftirlit er betra,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum og vísar þar til fleygra ummæla Vladimirs Leníns, fyrsta leiðtoga Sovétríkjanna sálugu. Tilefnið er samskiptasaga Vinnslustöðvarinnar, Hraðfrystihússins Gunnvarar og Huanghai skipasmíðastöðvarinnar í Kína - samskiptasaga sem Sigurgeir Brynjar, Binni, segir vera táknmynd áreksturs tveggja gerólíkra menningarheima.

Skrifað var undir samninga um smíði á Breka VE í júní 2014 og samkvæmt samningi átti að afhenda skipið tveimur árum síðar. Samningurinn hljóðaði upp á 11 milljónir dollara. Vinnslustöðin gerði þó alltaf ráð fyrir að fá skipið í fyrsta lagi þremur árum eftir undirskrift en niðurstaðan er sú að skipið kemur til heimahafnar tveimur árum seinna en kveðið var á um í samningi.

„Það sem mér er þó efst í huga er gleði yfir því að hafa loksins tekið við glæsilegum, nýjum togara og tilhlökkun að gera hann út til veiða.“

Forsaga málsins er æði sérstök. Aðdragandinn var sá að Vinnslustöðin leitaði tilboða í smíði nýs ísfiskstogara frá skipasmíðastöðvum í Danmörku, Noregi, Póllandi og Tyrklandi. Hagstæðasta tilboðið barst hins vegar frá Huanghai skipasmíðastöðinni í Rongcheng í Kína.

„Við fórum til Kína því við töldum okkur fá skipið á hagstæðu verði og það varð líka niðurstaðan. En það eru samskipti þessara ólíku menningarheima sem er saga út af fyrir sig. „You don´t get what you expect but what you inspect“ er sagt um Kína. Við lögðum enda gríðarlega mikið upp úr því að hafa eftirlit með hlutunum.

Kommúnisminn og ríkisvæðing allra hluta leiðir til þess að einstaklingarnir verða óábyrgir. Þeirra hlutskipti virðist vera að reyna að svindla sem mest! Þess vegna ríður á að hafa eftirlit með hlutunum. Við réðum eftirlitsmenn, jafnt Íslendinga og Kínverja, og snemma í ferlinu fóru utan bæði vélstjórar frá okkur og skipstjórar til þess að halda utan um hlutina. Þökk sé þessu aðhaldi og stranga eftirliti af hálfu útgerðanna eru skipin það sem þau eru í raun.

Breki reyndist afar vel á heimsiglingunni og því má segja að góð reynsla sé komin á virkni skipsins sjálfs.  Næsta verkefni er að reyna búnað sem snýr að veiðum og veiðigetu. Við eigum vonandi ekki eftir að upplifa neina „barnasjúkdóma“ í þeim efnum. Það verður að koma í ljós.“

Ætluðu ekki að standa við samninga

Eftirlit með smíði Breka kostaði umtalsverða fjármuni en það eru samt ekki stóru upphæðirnar í samhenginu.

„Þegar við leituðum til Kínverja með smíðina ráðfærði ég mig við kínverskan viðskiptavin okkar sem fæddist og ólst upp á Taiwan en fluttist um þrítugt til Bandaríkjanna og stundar þar mikil viðskipti, meðal annars við Kínverja. Hann var alveg skýr við mig og sagði okkur að þankagangur Kínverja, sem alist hefðu upp í umhverfi kommúnisma og vanist því að ríkið stýrði öllu, væri allt annar en sá sem hann hefði sjálfur öðlast í kínversku umhverfi sínu á Taiwan. Við kaup á vöru og þjónustu frá Kína yrðu menn að gera sér grein fyrir því að í huga Kínverjans væri ekkert rangt við að svindla á fólki.  Sökin væri ekki svindlarans heldur þess sem væri svo vitlaus að láta svindla á sér!“

Kínversku skipasmíðastöðinni hefði verið í lófa lagið að afhenda skipið sumarið 2017 en þá í því ástandi sem Kínverjum sjálfum þóknaðist að hafa skipið við afhendingu en ekki samkvæmt samningi þeirra við íslensku útgerðirnar. Skipið var sem sagt ófrágengið.

„Okkar reynsla er sú að þegar búið var að skrifa undir samninga hófust hinar eiginlegu samningaviðræður. Kínverjarnir reyndu að teygja og toga samningsákvæðin á allra handa máta en okkar afstaða var alltaf sú að samningar skuli standa. Þeir ætluðu sér augljóslega aldrei að skila skipinu í samræmi við ákvæði samninga.

Tafir á afhendingu skipanna urðu vegna þessara átaka okkar og skipasmíðastöðvarinnar. Við vildum einfaldlega knýja Kínverja til að standa við samninga.  Öllum sem tóku á móti skipinu á sunnudaginn var ljóst að okkur hafði tekist ætlunarverkið. Við fengum í hendur og sigldum heim glæsilegu og vel búnu skipi en það tók á og víða hrikti í samskiptum.“

Færi aftur þessa leið

Tafirnar hafa kostað Vinnslustöðina umtalsvert. Þegar ljóst var að dragast myndi enn frekar að Breki kæmi heim var ákveðið að selja Gullbergið snemma árs 2017. Það var reyndar gert í þeirri trú að nýi togarinn yrði afhentur haustið 2017.

Vinnslustöðin fór fram á tafabætur sem kveðið var á um í samningnum við kínversku skipasmíðastöðina en þurfti þó að semja um lægri upphæðir en samningar kváðu á um.

Í ljósi alls þessa mætti álykta sem svo að Vinnslustöðin færi ekki aftur sömu leið við endurnýjun skipaflota síns.

„Svarið kann að koma á óvart í ljósi reynslunnar en ég leyfi mér að segja að ég útiloka ekki skipasmíði aftur í Kína. Tek samt fram að slíkt er ekki á dagskrá hjá okkur núna. Þegar upp er staðið fáum við nefnilega skipið á því verði að óverjandi væri að kanna ekki möguleika í Kína á nýjan leik. Allur umheimurinn á gríðarleg viðskipti við Kína og ástæðan er sú að verð sem þar bjóðast eru einfaldlega hagstæðari en víðast annars staðar. Ég er hins vegar ekki sannfærður um að geta talið öðrum trú um ágæti þess að leita á kínversk skipasmíðamið á ný. Á það ber þó að líta að við erum reynslunni ríkari og mun betur settir en áður til þess að eiga viðskipti við Kínverja og kínversk fyrirtæki.“

Binni bætir við að fróðlegt væri að heyra um endanlegt verð skipa sem smíðuð voru í Tyrklandi fyrir HB Granda og Samherja og bera saman við það sem Breki og Páll Pálsson ÍS kostuðu.

„Nú bíður okkar að kynnast virkni nýs Breka við veiðar. Miklu máli skiptir að allt sé í góðu standi en þegar á heildina er litið er ég sannfærður um að nýr Breki verður á endanum mun ódýrari en nýju skipin sem smíðuð voru í Tyrklandi og þar munar miklu. Tilboðsverðið var 11 milljónir dollara og það er sú upphæð sem við greiðum fyrir skipið að viðbættum kostnaði við eftirlit og heimsiglingu, sem breytir heildarmyndinni lítið.“

Gengi dollars var um 113 krónur þegar gengið var frá samningum um smíði skipsins. Greitt var inn á verkefnið eftir framgangi þess og 50% ekki fyrr en við afhendingu. Þá var gengi dollars komið niður í 101 krónur.

„Stórum og langþráðum áfanga er náð og við höfum nú í höfn fyrsta skipið sem Vinnslustöðin hefur látið smíða fyrir sig frá því félagið var stofnað 1946.

Ómetanlegt samstarf

Samflot og samstarf okkar við forstöðumenn og starfsfólk Hraðfrystihússins Gunnvarar var ómetanlegt og það vil ég þakka sérstaklega. Samvinnan hófst með vangaveltum um nýsmíði og við höfum síðan fylgst að í öllu ferlinu frá smíðasamningum til heimsiglingar skipanna. Alveg ómetanlegt að njóta gagnkvæms stuðnings og samskipta við Vestfirðingana.

Ég þakka líka Friðriki J. Arngrímssyni skipamiðlara og Sævari Birgissyni, framkvæmdastjóra Skipasýnar, fyrir frábært samstarf sem aldrei bar  skugga á þótt oft blési hressilega í samskiptum okkar við Kínverja. Og þrátt fyrir átök menningarheimanna tveggja þökkum við Kínverjum fyrir glæsilegt skip. Þegar þeir áttuðu sig loksins á því að við myndum ekkert gefa eftir með að samningar skyldu standa fór verkið á skrið á nýjan leik á síðari hluta framkvæmdatímans eftir ótrúlegan hægagang í langan tíma. Kínverska fyrirtækið skilaði okkur skipi sem við erum mjög ánægð með og þakklát fyrir að fá.“