föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Átta ríki fá gula spjaldið frá ESB fyrir ólöglegar veiðar

16. nóvember 2012 kl. 12:21

Evrópusambandið

ESB telur að verðmæti ólöglegs fisks sé 19% af aflaverðmæti heimsaflans

Evrópusambandið hefur sent átta ríkjum víðsvegar um heiminn aðvörun um að sambandinu finnist þau ekki hafa gert nóg til að berjast gegn ólöglegum fiskveiðum. Þessi ríki eru Belís, Kambódía, Fiji, Gínea, Panama, Sri Lanka, Togo og Vanuatu.

Í aðvöruninni felst meðal annars að þessi ríki kunni að verða skilgreind sem ósammvinnuþýð í því að berjast gegn ólöglegum fiskveiðum. ESB er stærsti innflytjandi á sjávarafurðu í heiminum. Ef ástandið batnar ekki gæti ESB gengið skrefinu lengra og lagt á bann við sölu fiskafurða frá viðkomandi ríkjum í löndum sambandsins.

ESB áætlar að heildarverðmæti ólöglegs afla sé um það bil 10 milljarðar evra á ári (1.645 milljarða ISK) eða 19% af skráðu verðmæti heimsafla. Talið er að milli 11 og 26 milljónir tonna af fiski séu veidd ólöglega á ári, sem eru um 15% af heimsafla. Ennfremur er talið að 16% af öllum fiski veiddum í sjó sem flutt eru inn til ESB-landa komi frá ólöglegum veiðum.

María Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, segir að ríkin átta hafi ekki verið sett á svartan lista heldur megi líta á aðvörunina sem svo að þeim hafi verið sýnt gula spjaldið. Hún segir ESB vilja vinna með ríkjunum að lausn mála en um leið sé heiminum send skýr skilaboð um að ESB umberi ekki ólöglegar veiðar.

SeafoodSource greindi frá.