laugardagur, 6. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Átta tillögur að minningarreit

10. október 2018 kl. 15:00

Svæðið sem fyrirhugaður minningareitur verður gerður á. Mynd/Smári Geirsson

Þeirra minnst sem farist hafa í störfum hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað.

Síldarvinnslan tilkynnti í júlí síðastliðnum að fyrirhugað væri að gera minningareit á austasta hluta gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar sem eyðilagðist í snjóflóði 20. desember 1974. Skyldi reiturinn helgaður þeim sem farist hafa í störfum hjá fyrirtækinu. Tekið var fram að ætlast væri til að gamli gufuketillinn sem stendur á grunninum yrði hluti reitsins.

Frá þessu verkefni er sagt á heimasíðu fyrirtækisins.

Auglýst var samkeppni um útfærslu á minningareitnum og var öllum gefinn kostur á að setja fram hugmyndir. Nú liggur fyrir að átta tillögur bárust og verða þær metnar af sérstakri dómnefnd.

Veitt verða verðlaun að upphæð 600.000 kr. fyrir vinningstillöguna en þegar samkeppnin var auglýst var tekið fram að Síldarvinnslan áskildi sér rétt til að hafna öllum tillögum. Þá var einnig tekið fram að gert væri ráð fyrir að arkitekta- eða verkfræðistofa fullynni þá tillögu sem fyrir valinu yrði. Eins var tíundað að heimilt væri að nýta fleiri en eina tillögu til frekari útfærslu og skiptist þá verðlaunaféð á milli viðkomandi þátttakenda.

Í dómnefndinni sitja Guðný Bjarkadóttir skrifstofustjóri Síldarvinnslunnar, Björk Þórarinsdóttir stjórnarmaður í Síldarvinnslunni og Anna Berg Samúelsdóttir umhverfisstjóri Fjarðabyggðar. Gert er ráð fyrir að nefndin hefji störf síðar í þessum mánuði og ljúki störfum 20. nóvember.