fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áttu að skila af sér fyrir ári

Guðjón Guðmundsson
26. febrúar 2019 kl. 07:00

Ekki er alltaf rólegt á vaktinni á sjónum. Mynd/ÞB

Athugun á mönnun og hvíldartíma á fiskiskipum dregist úr hömlu.

Ekki er von á niðurstöðum úr athugun á mönnun og hvíldartíma um borð í íslenska fiskiskipaflotanum fyrr en í fyrsta lagi næsta haust. Í sérstakri bókun í síðasta kjarasamningi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjómannasambands Íslands var kveðið á um að aðilar væru sammála um að framkvæma þessa athugun og skyldi henni vera lokið fyrir lok árs 2017. Árni Bjarnason, formaður Félags skipstjórnarmanna, segir að óásættanlegur dráttur hafi orðið á þessu vegna túlkunar SFS á bókuninni.

Í bókuninni sagði að lögð skyldi áhersla á að setja athugun á uppsjávarskipum og ísfisktogurum í forgang og kynna samningsaðilum niðurstöðu þeirrar könnunar, enda þótt að athugun standi enn yfir vegna annarra fiskiskipaflokka. Skipaður var starfshópur sem skipaður var fjórum fulltrúum tilnefndum af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og fjórum fulltrúum tilnefndum sameiginlega af Sjómannasambandi Íslands, Sjómannafélagi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og VM-Félagi vélstjóra og málmtæknimanna. Starfshópurinn átti að hefja störf við undirritun kjarasamningsins og miða við að hafa lokið störfum sínum fyrir lok árs 2017.

„Þetta hefur dregist alltof lengi. Athugunin er í gangi núna og verður áfram eitthvað fram eftir árinu. Bókunin í kjarasamningnum er eins skýr og hugsast getur. En fulltrúar SFS þráuðust við að hefja verkið um margra mánaða skeið og vildu þess í stað hverfa frá því að athuga mönnun og hvíldartíma um borð í fiskiskipaflotanum yfir í að kannaður skyldi virkur vinnutími. Athuguninni var ætlað að snúast um  hvíldartíma áhafnarinnar en ekki hvort það sé rólegt  meðan þeir eru á vaktinni,“ segir Árni.

Endurspeglar ekki veruleikann

Af þessum sökum hafi orðið allt of mikill dráttur á framkvæmd athugunarinnar, að sögn Árna. Um miðjan þennan mánuð verður hafist handa við athugun á mönnun og hvíldartíma um borð í öllum togurum. Gerð hefur verið athugun í uppsjávarflotanum en Árni hefði kosið að hún hefði haldið áfram og staðið yfir fram yfir loðnuvertíð ef henni verður. Flest skipin hafi verið á síld- eða kolmunnaveiðum. „Það hefur aldrei drepið neinn að vera á kolmunna og athugun á hvíldartíma á þessum veiðum endurspeglar ekki veruleika sjómanna á uppsjávarveiðum almennt. Ég held  að sjómenn séu almennt að skila þessu verkefni alveg þokkalega frá sér en það er of snemmt að tala um einhverjar niðurstöður í þessum efnum.“

Árni segir að frá sínum bæjardyrum séð og flestra sjómanna hafi markmiðið með athuguninni verið það að sníða af grófustu agnúana af vinnutíma sjómanna en störf fiskimanna  verði aldrei með sama hætti og á vinnustöðum í landi.

„Þessi athugun verður að lágmarki að skila því að vaktafyrirkomulag með 16 tíma í vinnu og 8 tíma í hvíld verði aflagt. Nú þegar hefur þessu verið breytt á nokkrum skipum og fært niður í 14 tíma í vinnu og 10 tíma í hvíld sem er til bóta. Engu að síður eru 14 tíma erfiðisvinna á sólarhring eitthvað sem ekki er á allra færi að höndla til lengdar.“

Árni segir dæmi um að fækkað hafi verið í áhöfn ísfiskstogara jafnvel um tvo menn án þess að nokkrar breytingar aðrar hafi verið gerðar á búnaði þessara skipa. Á sama tíma hafi aflinn aukist um jafnvel helming eða meira. „Enn heyrist fréttir af því að til standi að fækka í áhöfnum þótt þeir sem ég hef rætt við segi engar forsendur til þess vegna mikils vinnuálags.“

Fréttin birtist fyrst í öryggisblaði Fiskifrétta 24. janúar