mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ATVIK-sjómenn frá VÍS

Guðjón Guðmundsson
6. febrúar 2019 kl. 14:45

Gísli Níls Einarsson

Nýtt atviksskráningakerfi sem VÍS hefur þróað í samstarfi við Slysavarnaskóla sjómanna, Samgöngustofu, Samherja, FISK Seafood og Vísi hf. Forritið verður í öllum skipum Samherja, Vísis, Þorbjarnar, FISK Seafood og Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

ATVIK-sjómenn er nýtt atviksskráningakerfi sem VÍS hefur þróað í samstarfi við Slysavarnaskóla sjómanna, Samgöngustofu, Samherja, FISK Seafood og Vísi hf. Forritið verður í öllum skipum Samherja, Vísis, Þorbjarnar, FISK Seafood og Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Atvikaskráningarkerfið ATVIK kom fyrst út fyrir fjórum árum og hefur verið mikið notað af fiskvinnslufyrirtækjum, sveitarfélögum og öðrum fyrirtækjum. Stjórnendur nota Atvik til að öðlast yfirsýn á hættur í vinnuumhverfinu og kortleggja slys og tjón. Þessi yfirsýn auðveldar svo ákvarðanir um fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir endurtekin slys og tjón á vinnustaðnum.

Fiskifréttir birtu frétt af árangri Vinnslustöðvarinnar fyrir skemmstu - sjá hér. 

Gísli Níls Einarsson, sérfræðingur hjá VÍS, segir að bæði forritin  haldi utan um ábendingar um hættu í vinnuumhverfinu, óábyrga hegðun, og tilkynningar af ýmsum toga. Í öðrum flokki gefst kostur að skrá „næstum slys“, minniháttar slys og fjarveruslys. Þriðji skráningarflokkur er undir yfirskriftinni Ógn. Þar má skrá atvik þegar haft er í hótunum við starfsmann, ógnandi hegðun, einelti og tilkynna kynferðislega áreitni. Þær ábendingar fara ekki til öryggisstjóra fyrirtækisins heldur mannauðsstjóra eða þess sem heldur utan um mál af þessu tagi.

Sjálfvirk samskipti

Allt annað sem skráð er í forritin fer í miðlægan gagnagrunn og öryggisstjóri fyrirtækisins fær sendan tölvupóst um skráningarnar.  Öryggisstjórinn getur tengst kerfinu með rafrænum skilríkjum, skoðað skráningar og skýrslur um þær úr öllum starfsstöðvum fyrirtækisins. Hægt er að hengja myndir við skráningarnar. Þegar öryggisstjórinn setur skráningu í vinnslu fær sá sem skráði hana tölvupóst um það. Þegar vinnslu málsins er lokið birtist tilkynning um það í kerfinu og sá sem skráði atvikið fær tölvupóst um lyktir þess. Með þessu skapast sjálfvirk samskipti um meðferð mála og yfirsýn um þær hættur sem steðja að í vinnuumhverfinu. Kerfið felur einnig í sér sjálfvirka skráningu á fjarveruslysum til Vinnueftirlitsins með sérstöku eyðublaði sem fyllist nær sjálfvirkt út. Sama á við um skýrslur til Sjúkratrygginga Íslands og VÍS.

„Forritið er fyrst og fremst ætlað fyrirtækjum sem eru í langtíma viðskiptum við VÍS. Eftirspurn frá öðrum fyrirtækjum varð til þess að  VÍS hóf sölu á því. Samherji og Þorbjörn, sem eru ekki í viðskiptum við VÍS, nýta til að mynda forritið og aðrar útgerðir hafa hug á því að kaupa það einnig. Nákvæm atvikaskráning af þessu tagi býður upp á mun markvissara forvarnarstarf um borð í skipum og allri starfsemi sjávarútvegs í landi. Rafræn atvikaskráning til sjós er næsta skref í öryggismálum sjómanna,“ segir Gísli Níls.

Fréttin birtist upphaflega í öryggisblaði Fiskifrétta 24. janúar