miðvikudagur, 1. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Auðveldar pillun og þéttir holdið

Guðsteinn Bjarnason
15. febrúar 2020 kl. 09:00

Ingvar Guðjónsson og Hallur Viggósson í framleiðslusal fyrirtækisins. MYND/GB

Optimal í Grindavík þróar og framleiðir íblöndunarefni fyrir sjávarafurðir.

Hallur Viggósson og Ingvar Guðjónsson hjá Optimal segja íblöndunarefnin gera góða vöru betri. Á mörkuðum séu gerðar strangar kröfur til sjávarafurða en reglurnar ólíkar frá landi til lands.

Optimal í Grindavík er eitt þeirra fjölmörgu fyrirtækja sem starfrækt eru í tengslum við sjávarútveginn hér á landi. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á íblöndunarefnum í sjávarafurðir, og er stöðugt að þróa og bæta efnablöndurnar.

„Við byrjuðum í rækjunni og það er ennþá okkar aðalafurð,“ segir Hallur Viggósson, annar tveggja eigenda fyrirtækisins. Hann segir nauðsynlegt að undirbúa rækjuna fyrir vinnslu.

„Allar rækjuvinnslur sem nota kaldsjávarrækju nota aukaefni. Vinnslan verður erfiðari án þeirra, rækjan harðari í pillun og sleipari. Auk þess verður suðutapið það mikið að nýtingin hrapar.“

Saltfiskurinn orðinn hvítur

Þar á ofan verndar meðferðin bæði lit og bragð rækjunnar, að sögn Halls. Svipaða sögu er að segja af saltfiskinum: „Saltfiskurinn í gamla daga var alltaf gulur, hann er ekki gulur lengur.“

Meðeigandi Halls er Ingvar Guðjónsson, Grindvíkingur með mikla reynslu úr sjávarútvegi. Hann hefur starfað hjá Optimal síðan 2009 en kom inn sem eigandi árið 2016.

„Við vorum fjórir eigendurnir þegar við byrjuðum. Það var árið 2001,“ segir Hallur. „Svo æxlaðist það þannig að með tímanum keypti ég hina út.“

Hallur er sjávarútvegsfræðingur frá Noregi og vann að loknu námi á Fiskeriteknologisk Forskningsinstitut í Tromsö.

„Það heitir NOFIMA í dag. Það var mjög góður skóli, hvernig á að gera tilraunir. Síðan var ég að vinna í iðnaðinum hérna heim í mörg ár, mikið sem framleiðslustjóri.“

Alls framleiðir Optimal tíu blöndur fyrir sjávarafurðir, þar á meðal fyrir ferskan, frystan, reyktan og léttsaltaðan fisk, auk rækju og saltfisks.

„Þessar blöndur koma í veg fyrir vökvatap, gefa betri þéttleika og svo eru þær með þráavörn. Fiskurinn gulnar þegar hann þránar, fær verra bragð og ljótt útlit.“

Gæðavottun

Aukaefni í matvælum hafa löngum verið umdeild, ekki síst í fiski en þeir segja mikilvægt að standa rétt að málum.

„Það er hægt að nota þau fyrir ferskfisk, en það er misjafnt eftir markaðssvæðum hvað þú mátt gera með aukaefnum. Evrópusambandið er til dæmis mun strangara en Bandaríkin og Kanada. Á mörkuðunum er mjög strangt eftirlit með efnunum, og hvort varan er rétt merkt eða ekki.“

Þeir Hallur og Ingvar segjast heimsækja viðskiptavini sína reglulega, og oft er langt að fara, meðal annars til Kína þar sem íblöndunarefni frá Optimal eru notuð.

„Við reynum að benda viðskiptavinum okkar á það ef við sjáum að þeir nota efnin rangt. Auðvitað er hægt að ofnota allt, en þá er verið að ganga á móti gæðunum. Rétt notað eykur þetta gæði fisksins,“ segir Hallur.

Vörurnar frá Optimal eru allar vottaðar í bak og fyrir með BRC-vottun, sem er alþjóðleg gæðavottun sem tryggir neytendavernd, notuð í meira en 100 löndum. Án gæðavottunar væri erfiðara að selja vöruna.

„Ef við værum ekki með þá vottun gætum við varla selt neitt,“ segir Hallur.