þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Auka úthald varðskipanna

27. janúar 2018 kl. 08:00

Frá því þegar TF-Gná sótti slasaðan skipverja í litháíska flutningaskipið Skala um 115 sjómílur norðvestur af Reykjanesi í haugasjó. MYND/LANDHELGISGÆSLAN

Þór og Týr gerðir út í þrjár vikur í senn til skiptis

Leit og björgun áhafnar bandarísku skútunnar Valiant sem hvolfdi með tveimur mönnum um borð um 200 sjómílur suðvestur af Reykjanestá síðastliðið sumar er meðal eftirminnilegri atburða á síðasta ári að mati Ásgríms Ásgrímssonar, framkvæmdastjóra aðgerðasviðs hjá Landhelgisgæslunni. Hann segir atburðinn minnistæðan, ekki síst í ljósi þess hvernig allir þættir í leit og björgun hefðu unnið saman sem einn og hve giftusamlega hefði tekist til við björgunina.

„Varðskipið Þór var statt undan Þorlákshöfn og lagði strax að stað áleiðis en átti um 250 sjómílna siglingu fyrir höndum þannig að ljóst var að skipið yrði ekki á svæðinu fyrr en 15-20 tímum seinna.  Staðsetningin var einnig við jaðar þess svæðis sem þyrlurnar ná til og því ljóst að þær færu ekki til leitar en voru til taks ef og þegar til björgunar kæmi. Það fór því að lokum svo að hvorki varðskip né þyrla frá Landhelgisgæslunni björguðu mönnunum en kerfið sem hefur verið sett upp á Íslandi sem og alheimskerfið virkaði. Neyðarsendir skútunnar fór í gang og fór að senda merki upp í gervihnött. Merkin koma niður í jarðstöð í Noregi og þaðan fær stjórnstöð Landhelgisgæslunnar aðvörun um að neyðarsendir sé í gangi. Þessir neyðarsendar eru þeirrar gerðar að þeir eru með nafn á sæfarinu og staðsetningu. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson var á þessum slóðum og einnig sendum við flugvél Isavia af stað sem að lokum fann skútuna og vísaði rannsóknaskipinu að henni. Auk þess var haft samband við dönsk hernaðaryfirvöld á Grænlandi sem sendu eftirlitsflugvél frá Syðri Straumsfirði á vettvang en henni var snúið við eftir að skipbrotsmennirnir fundust. Það fóru nokkrar klukkustundir í björgunina og allt tókst þetta eins og best verður á kosið,“ segir Ásgrímur.

Þór og Týr gerðir út í 360 daga

Landhelgisgæslan tók þátt í kafbátaeftirlitsæfingunni Dynamic Moongoose sem Atlantshafsbandalagið stóð fyrir hér við land síðastliðið sumar. Alls tóku yfir tíu herskip og kafbátar þátt í æfingunni, sem er sú stærsta sinnar tegundar sem Landhelgisgæslan hefur tekið þátt í. Í beinu framhaldi tók Landhelgisgæslan þátt í nýliðaæfingu með þýska kafbátaflotanum. Þarna æfðu þyrluáhafnir Landhelgisgæslunnar í fyrsta sinn að hífa mannskap úr kafbát.

Ásgrímur segir að áherslurnar í starfseminni í fyrra hafi verið þær sömu og áður, þ.e.a.s. að leitast við að hafa varðskip sem mest á sjó. Úthaldsdagar voru nálægt 300 talsins sem var skipt jafnt á milli Týs og Þórs. Stefnt sé að því á þessu ári að gera út Þór og Tý til skiptis í 360 daga. Þetta verður gert með öðru úthaldsfyrirkomulagi. Hvort skip verði gert út í þrjár vikur í senn og verði síðan í höfn í þrjár vikur. Tvær áhafnir verða á skipunum. Þetta muni auka viðbragðið úti á sjó.

Í fyrra voru svo að minnsta kosti tvær þyrlur Gæslunnar klárar í útköll 96 prósent ársins. Það segir þó ekki alla söguna því mönnunin á þyrlunum hélst ekki í hendur við þetta. Rétt rúmlega helming ársins voru tvær þyrluáhafnir til taks en það er forsenda þess að hægt sé að sinna leit- og björgunarútköllum lengra en tuttugu sjómílur frá landi. 44 prósent ársins var ein áhöfn til taks.

„Það er samt rétt að halda því til að haga að þrátt fyrir allt tókst að hafa tvær áhafnir til taks fleiri daga á árinu en vænta mætti því skilgreind viðbragsgeta miðast við að tvær áhafnir séu til taks aðeins þriðjung ársins. Breytingar á vaktafyrirkomulagi og fórnfýsi áhafna eru helstu skýringarnar á þessu.“

Samstarf við EMSA

Undanfarin átta ár hefur Landhelgisgæslan lagt til og leigt flugvél sína TF-SIF til Frontex, landamæra- og strandgæslustofnunar Evrópu, einkum til að afla sér sértekna. Mest hefur hún verið leigð í 6-7 mánuði á ári en á síðasta ári var hún leigð í 4,5 mánuði. Á þessu ári er stefnt að því að leigja hana í þrjá mánuði.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fylgist með allri skipaumferð við landið. Það sem helst hefur torveldað sjálfvirkt eftirlit með skipaferðum eru skuggasvæði út af háum björgum undan landi fyrir fjarskipti og svo fjarlægð frá landi. Nú eru hins vegar komnir fram á sjónarsviðið gervihnettir sem nema AIS-merki. Landhelgisgæslan hefur í því sambandi notið velvildar Siglingaöryggisstofnunar Evrópu, EMSA, sem hefur látið Landhelgisgæslunni í té gervihnattamyndir. Nú stendur til að Landhelgisgæslan fái AIS tilkynningar úr kerfi EMSA beint inn í kerfi sín. Ásgrímur segir að þetta verði mikið framfaraspor og auki öryggi sjófarenda við Ísland til muna.