laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aukið úthald hjá Gæslunni

8. febrúar 2013 kl. 15:27

Ægir

Varðskipin voru samtals 304 daga á sjó á síðasta ári samanborið við 230 daga árið 2011.

 

Ný samantekt Landhelgisgæslunnar yfir úthald á tækjum hennar árið 2012 sýnir umtalsverða aukningu á viðbragði Gæslunnar miðað við fyrra ár. Varðskipin voru samtals 304 daga á sjó innan íslenska hafsvæðisins í samanburði við 230 daga á sjó árið 2011. Útkallsstaða á þyrlum Landhelgisgæslunnar jókst einnig á árinu, en þann 5. febrúar bættist þyrlan TF-SYN í flugflotann en hún er sömu tegundar og þyrlurnar TF-LIF og TF-GNA . Aldrei kom upp sú staða á árinu 2012 að engin þyrla væri til taks en þrjár þyrlur voru til taks 66 daga ársins og tvær þyrlur 272 daga ársins sem er nokkuð betri niðurstaða en árið á undan.

Í því skyni að afla tekna til reksturs Landhelgisgæslunnar hefur stofnunin frá árinu 2010 sinnt verkefnum erlendis, m.a. fyrir Landamærastofnun Evrópu og Evrópusambandið. Erlendu verkefnin skiluðu 775 milljónum króna árið 2010 og 1.236 milljónum árið 2011. Niðurstöður vegna erlendra verkefna árið 2012 liggja ekki endanlega fyrir en þó er ljóst að tekjur vegna þeirra verða töluvert lægri en árið 2011.

Sjá nánar á vef Landhelgisgæslunnar.