miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aukin eftirspurn eftir frystilausnum

Guðjón Guðmundsson
19. apríl 2020 kl. 09:00

Ragnar A. Guðmundsson, yfirmaður sölumála hjá Skaginn 3X í Evrópu og Skandinavíu.

Snarminnkandi sala á ferskum fiski

Mikil eftirspurn er hjá framleiðendum frystibúnaðar í kjölfar snarminnkandi sölu á ferskum fiski um allan heim.

Ragnar A. Guðmundsson, yfirmaður sölumála hjá Skaginn 3X í Evrópu og Skandinavíu, segir að viðbrögð við kórónuveirunni hafi meðal annars falist í lokun veitingastaða, hótela og fiskborða í matvöruverslunum. Minnkandi eftirspurn eftir ferskum fiski sem þessu fylgdi hefur verið mætt með aukinni sölu á frystum afurðum.

„Verslun með frystar afurðir hefur vaxið og þar með eftirspurn eftir lausfrystum og plötufrystum. Það er ekki langur tími liðinn frá því að hlutirnir æxluðust með þessum hætti en við erum bara á fullu að vinna í tilboðum. Það er alla vega klárt að það er aukin eftirspurn eftir frystilausnum hjá Skaganum 3X og ástæðan er kórónuveiran sem herjar nú yfir heimsbyggðina. Það eru fiskvinnslur víða um heim einkum í Evrópu sem eru að leita fyrir sér eftir frystibúnaði. Við höfum sent út mörg tilboð undanfarna daga. Gangi allt eftir getur hér verið um að ræða fína viðbót fyrir okkur í sölu á lausfrystum og plötufrystum,“ segir Ragnar.

Ekki til á lager

Búnaður af þessu tagi er ekki til á lager hjá Skaginn 3X en fyrirtækið kemur til móts við viðskiptavini með hraðari afgreiðslutíma. Heimsfaraldur setur þó sitt strik í reikninginn og uppsetning á búnaði sem fyrirhugaður var erlendis tefst af þeim sökum. Til stóð að setja upp umfangsmikinn vinnslubúnað fyrir fiskvinnslufyrirtæki í Skotlandi en því seinkar á meðan staðan er eins og hún er.

Ragnar segir að meðan faraldurinn gengur yfir sjái menn fram á aukningu í sölu á frystibúnaði en erfitt sé að spá um hvort breytingar á vinnsluaðferðum verði viðvarandi. Margir framleiðendur séu með sína tryggu ferskfiskmarkaði sem muni sennilega að einhverju leyti koma til baka þegar faraldurinn er yfirstaðinn.

„Það sem er líka að gerist núna er að fiskvinnslur eru að birgja sig upp. Svo kallað retail blómstrar t.d. dæmi um að stóru supermarkaðarnir í Bretlandi hafa aukið sölu sína á fiski um hartnær 40% síðan aðstæður urðu svona. Stór laxeldisfyrirtæki eru sum hver að loka og láta laxinn bara vaxa og aðrir verða að slátra og þá er laxinn slægður og heilfrystur og sendur þannig á markað eða geymdur í takt við markaðsverð hverju sinni,“ segir Ragnar.