föstudagur, 27. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aukin velmegun í Asíu skapar tækifæri fyrir Íslendinga

Guðsteinn Bjarnaason
20. júlí 2019 kl. 13:00

Sölufélögin í Asíu sem HB Grandi kaupir af Útgerðarfélagi Reykjavíkur eiga sér sögu allt aftur til Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna.

Kristján Þ. Davíðsson, stjórnarformaður HB Granda, segir aukna velmegun Asíubúa koma Íslendingum til góða. Þeir séu sólgnir í sjávarfang.

„Það hefur verið yfirlýst stefna okkar að fara meira út í markaðina,“ segir Kristján Þ. Davíðsson, stjórnarformaður HB Granda. Fyrirtækið gekk í síðustu viku frá samingum um kaup á sölufyrirtækjum í Asíu af Útgerðarfélagi Reykjavíkur, sem áður hét Brim hf.

“Við erum að vonast til þess að þessi kaup muni styrkja markaðssókn okkar inn á mikilvæga og vaxandi markaði í Asíu. Það er hugsunin á bak við þetta.“

Rótgróin félög
Íslensku sölufyrirtækin í Asíu eru býsna rótgróin. Sögu þeirra má rekja til þess að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, forveri Icelandic Group, opnaði söluskrifstofu í Japan árið 1989.

„Henni var breytt í fyrirtæki minnir mig 1992 ,“ segir Kristján, „og er búin að vera starfandi síðan og er með mjög öfluga starfsemi. Þetta er náttúrlega mikils virði að komast beint í þau markaðssambönd sem hafa verið búin til og nýta þann mannauð sem þar er fyrir. Við sjáum mikil tækifæri í þessu.“

Brim hf. keypti þessi fyrirtæki út úr Icelandic Group í lok árs 2015. Icelandic Group var þá komið í eigu Framtakssjóðs Íslands.

Icelandic Group fór illa út úr hruninu, var yfirskuldsett og átti í fjármögnunarvanda, og svo fór að Framtakssjóðurinn keypti félagið árið 2010.

Nokkrum árum síðar hófst Framtakssjóðurinn handa við að selja einingar út úr Icelandic Group, frekar en að selja félagið í einu lagi. Á þeim tíma voru starfsmenn Icelandic Group á heimsvísu alls um 1.200 talsins, þar á meðal hjá sölufélögum í Japan, Kína og Hong Kong.

Auk starfseminnar í Asíu, sem Brim keypti, voru Iberica á Spáni, Nýfiskur í Sandgerði og Gadus í Belgíu seld til íslenskra aðila og í nóvember 2017 var Seachill í Bretlandi selt til bresks kjötvinnslufélags.

Loks var ákveðið að vörumerkið Icelandic yrði gefið íslenska ríkinu.

Fara dýpra í markaðina
Markaðsdeildin í höfuðstöðvum HB Granda við Reykjavíkurhöfn hefur hingað til séð um sölustörfin, en stefnan hefur undanfarið verið sú að færa þau störf að hluta úr landi inn á markaðina sjálfa.

„Við höfum náttúrlega verið að selja inn á þessa markaði. Við erum að fara mun dýpra og betur í þá, skapa okkur fleiri tækifæri.“

HB Grandi hefur selt ýmsar fisktegundir inn á Asíumarkað, svo sem grálúðu, makríl og loðnu. Allt er þetta flutt þangað í gámum.

„Japan er mikilvægasti markaðurinn fyrir loðnu og loðnuhrogn, og náttúrlega fyrir karfa líka,“ segir Kristján. „Kina hefur verið að kaupa alls kyns fisk bæði til endurvinnslu og í vaxandi mæli fer þetta væntanlega á innalandsmarkað.“

Hann nefnir að Kínverjar hafi til dæmis keypt bæði grásleppu og sæbjúgu.

„Grásleppan, sem við hentum alltaf í sjóinn þegar ég var á grásleppu með afa í gamla daga, hún er öll étin í Kína.“

Tækifærin skapast
Hann segir þetta sýna að Kínverjar kunni betur að nýta matvælin

„Það er svo gaman með Asíuþjóðirnar að bæði eru þær fjölmennar og þær eru sífellt að komast í betri álnir, og þeir eru mjög hrifnir af sjávarfangi. Þannig að þegar þeir efnast þá vilja þeir gjarnan kaupa gæða sjávarfang, og það bjóðum við upp á.“

Kristján segir að þarna skapist því ný tækifæri fyrir Íslendinga, enn frekar en verið hefur.

„Við ætlum að byggja á því góða starfi sem þessi fyrirtæki hafa verið í um árabil og gera enn betur.“

Viðræður gengu hratt
Viðræður HB Granda og Útgerðarfélags Reykjavíkur gengu hratt fyrir sig, enda heimatökin hæg. Guðmundur Kristjánsson er sem kunnugt forstjóri og meirihlutaeigandi í HB Granda, kaupanda sölufélaganna, ásamt því að vera eigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur, seljanda félaganna.

HB Grandi sendi 9. júlí frá sér tilkynningu um að viðræður væru hafnar um kaupin.

„Við reynum að klára þetta eins hratt og vel og við getum,“ sagði Kristján þegar Fiskifréttir ræddu þá við hann. Stefnt væri að því að loka viðræðum fyrir haustið.

„Það er ekki gott að hafa þetta hangandi í loftinu. En eðli málsins vegna verðum við að setja það í loftið í Kauphöllinni verandi skráð fyrirtæki,“ sagði Kristján miðvikudaginn 10. júlí. Tveimur dögum síðar var búið að undirrita samninginn.