þriðjudagur, 20. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Auknar kröfur íþyngjandi fyrir hafnir

Guðsteinn Bjarnason
11. október 2020 kl. 09:00

Stjórnvöld hyggjast gera auknar kröfur til vigtunar í löndunarhöfnum. MYND/HAG

Gagnrýni á drög að reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla.

Hafnasamband Íslands segir með öllu óþolandi að þurfa að velta yfir á notendur auknum kostnaði sem fylgi því að færa verkefni Fiskistofu yfir á hafnir landsins.

Hafnasamband Ísland og Samband íslenskra sveitarfélaga eru meðal þeirra sem gert hafa alvarlegar athugasemdir við drög að reglugerð um vigtun og skráningu á sjávarafla, sem hafa verið til kynningar á Samráðsgátt stjórnvalda. Umsagnafrestur rann út í síðustu viku.

Þar á meðal eru kröfur um að myndavélaeftirlit verði í öllum löndunarhöfnum auk þess sem auknar kröfur eru gerðar um búnað til vigtunar og hæfi starfsmanna.

Reykjaneshöfn segir, í sinni umsögn, að flestar fiskihafnir landsins eigi „í erfiðleikum með að ná endum saman í sínum rekstri og mega ekki við neinum kostnaðarauka.“

Allar tillögur í drögunum virðist ganga út á það „að íþyngja höfnum varðandi fyrirkomulag og umgjörð við vigtun sjávarafla á hafnarvog.“

Athugasemdir frá Hafnasambandi Íslands eru á sömu lund. Ljóst sé að „breytingarnar hafa í för með sér verulega aukinn kostnað hafna vegna starfsmannahalds og vegna kaupa á uppsetningu á tölvu- og myndavélabúnaði. Hafnasambandið leggst alfarið gegn meginþorra þeirra breytinga sem lagðar eru fram.“

Hafnasambandið segir hafnir landsins væntanlega þurfa að velta þeim kostnaði, sem fylgi því að „færa verkefni af Fiskistofu yfir á hafnir landsins“, yfir á notendur hafna. Sú þróun sé með öllu óviðunandi.

„Vanhöld ríkisins á að fjármagna starfsemi Fiskistofu getur ekki átt að verða vandamál hafnanna, sem hafa takmarkaða fjármuni til rekstra, viðhalds og nýframkvæmda.“

Samband íslenskra sveitarfélaga tekur í sama streng og gerir „alvarlega athugasemd við að kostnaðarmat hafi ekki verið gert og fylgt með drögum að reglugerð í samráðsgátt.“

Sambandið gagnrýnir að ekki hafi verið haft samráð, bæði við sambandið og Hafnasamband Íslands, við gerð reglugerðarinnar. Þá greinir Sambandið frá því að óskað hafi verið eftir fundi með ráðuneytinu og að ráðuneytið hafi orðið við þeirri beiðni.

Skýrari reglur til bóta

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segjast „telja það til bóta að settar séu skýrari reglur um hafnarvogir og virkni þeirra sérstaklega þegar kemur að innra eftirliti með búnaði,“ en gera þó nokkrar athugasemdir.

Samtökin gagnrýna að settar séu íþyngjandi kvaðir á skipstjóra með því að kröfum um að hann bæði „tilkynni til löndunarhafnar um áætlaðan afla áður en löndun hefst“ og „gefi vigtarmanni fullnægjandi upplýsingar um magn, aflasamsetningu og viðtakanda aflans.“

Samtökin segja að sterk málefnaleg rök þurfi að liggja fyrir eigi að leggja slíkar kvaðir á skipstjóra. Huga þurfi „betur að þessu atriði í frumvarpinu og þá hvort hægt sé að leysa málið með annars konar hætti.“

Þá telja samtökin að „útskýra þurfi betur hver ávinningur kunni að vera með myndavélaeftirliti við hafnir.“

Þau segja drögin fela í sér að hafnir þurfi að fjárfesta í búnaði og aðstöðu og spurningar vakni um það hvort verkefni starfsmanna hafna feli í sér aukinn kostnað: „Mun þetta kalla á aukna gjaldtöku af hálfu hafnaryfirvalda á greinina? Hefur farið fram kostnaðarmat? Geta starfsmenn löndunarþjónusta og fiskmarkaða sinnt hluta þessara verkefna til jafns á við starfsmenn hafna?“

Kostnaður lendir á útgerðinni

Landssamband smábátaeigenda (LS) segist margsinnis hafa sent umsagnir um vigtun sjávarafla og bent á það sem félagið telji að betur megi fara. Einkum lúta þær að reglum um fasta ísprósentu.

Hvað varðar reglugerðardrögin segja LS þau kalla á aukinn kostnað við vigtun og lýsa áhyggjum af því að „hann lendi meira og minna á útgerðinni. Af þeim sökum hefði verið nauðsynlegt að breytingunum hefði fylgt kostnaðarmat.“

Sjómannasamband Íslands lýsir yfir almennri ánægju með reglugerðardrögin, og fagnar sérstaklega 54. grein um myndavélareftirlit „þó að á sumum stöðum sé örðugt að hafa myndeftirlit alla leið frá skipi til hafnarvogar.“

Sjómannasambandið ítrekar þó andstöðu sína við heimavigtun og endurvigtun eins og nú er heimilt: „Affarasælast væri að ljúka allri vigtun á hafnarvog og eða á fiskmarkaði undir eftirliti Fiskistofu og hafnaryfirvalda.“

Boðar athugasemdir

Persónuvernd er meðal þeirra sem sendu inn umsögn og vekur þar athygli á því að stofnunin hafi áður fjallað um og tekið afstöðu til rafrænnar vöktunar í löndunarhöfnum. Þar hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að ef taka ætti upp slíkt rafrænt eftirlit þurfi að gera lagabreytingar, og við slíkar lagabreytingar þurfi að gæta meðalhófs þannig að ekki yrði gengið lengra en nauðsyn krefði.

Eitthvað mikið að

„Það er eitthvað verulega mikið að þegar áratugir líða án þess að yfirvöld í tímans rás hafi borið gæfu til að koma ásættanlegu skikki á vigtun og skráningu sjávarafla,“ segir Árni Bjarnason, formaður Félags skipstjórnarmanna. „Í þeirri reglugerð sem nú liggur fyrir til umsagnar er gerð tilraun til að gera úrbætur á því regluverki sem fyrir er.“

Hann segir að í reglugerðardrögunum sé „gerð tilraun til að gera úrbætur“ en þó sé sneitt framhjá því sem snýr að „lang algengustu umkvörtunarefnum sjómanna,“ og á þar sérstaklega við endurvigtun.

Þótt tekið sé á eftirlitsferlinu „frá veiðiskipi að hafnarvog“ með kröfum um myndavélarbúnað þá séu „fyrst og fremst tvö atriði sem viðvarandi ónægja ríkir um meðal sjómanna og í hvorugri þeirra gerðar úrbætur svo vel sé í þessari reglugerð.“

Annars vegar á hann þar við frávik í íshlutfalli og hins vegar að gefin sé upp röng meðalþyngd þess fiskjar sem landað er, „en bæði þessi atriði leiða til skerðingar á hlut fiskimanna.“

Bæði þessi atriði segir hann að leysa megi með svipuðum hætti og gera á með myndavélareftirliti með vigtunarferlinu, nefnilega með því að „fylgja ferlinu eftir alla leið þar til vinnsluþátturinn sjálfur hefst, en stoppa ekki úti í miðri á.“