miðvikudagur, 20. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aukning loðnukvótans skapar 6-7 milljarða tekjuauka

24. janúar 2011 kl. 18:08

Loðna

Loðnukvótinn ekki meiri síðan á vetrarvertíð 2007

Aukning loðnukvótans um 125 þúsund tonn skapar sex til sjö milljarða króna tekjuauka fyrir þjóðarbúið, að því er Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir í samtali við ríkisúvarpið. Loðnukvótinn hefur ekki verið meiri síðan á vetrarvertíð árið 2007.

Gert er ráð fyrir að sjávarútvegsráðherra gefi út viðbótarkvóta í loðnu á morgun upp á 125 þúsund tonn og staðfesti tillögu Hafrannsóknastofnunar sem leggur til að heildarkvótinn verði 325 þúsund tonn á þessari vertíð. Það þýðir að í hlut Íslendinga koma samtals um 250 þúsund tonn.

Útgefinn loðnukvóti hefur ekki verið meiri síðan á vetrarvertíð árið 2007. Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri á nytjastofnasviði Hafrannsóknastofnunar, segir í samtali við ríkisútvarpið óvenjumikla útbreiðslu loðnu í janúar, allt frá sunnanverðum Austfjörðum og vestur fyrir Kolbeinseyjarhrygg. Hann segir að mesta magnið sé ekki í fremsta hluta göngunnar eins og hafi verið í kröftugri göngum. Þorsteinn segir að aftur verði gerðar mælingar þegar fyrsti hluti loðnunnar verði kominn upp að suðurströndinni.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, segir tillögu Hafró um 125 þúsund tonna viðbótarkvóta afar góð tíðindi. „Við getum reiknað með að til Íslands komi 113 þúsund tonn sem gefur sex til sjö milljarða í þjóðarbúið til viðbótar við það sem áður var komið,“ segir Friðrik. „Þetta er auðvitað mjög ánægjulegt. Og enn vonum við að það geti bæst við því það á eftir að fara í nýjan leiðangur.“