þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ávísun á betur launuð störf

Guðjón Guðmundsson
5. janúar 2019 kl. 09:00

18 manns eru í netagerðarnámi við Fisktækniskólann.

Að loknu grunnnámi í Fisktækniskólanum opnast möguleikar fyrir nemanda á starfi innan sjávarútvegsfyrirtækja sem faglærður einstaklingur í veiðum, vinnslu eða fiskeldi.

Undirbúningur að eflingu náms á sviði sjávarútvegs og fiskeldis og að stofnun Fisktækniskóla Íslands hófst innan Fjölbrautaskóla Suðurnesja árið 2006. Ólafur Jón Arnbjörnsson var þá skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem var stór stofnun með um eitt þúsund nemendur. Honum rann til rifja að um 10% brottfall nemenda var á Suðurnesjum að grunnskólanámi loknu og sem skólamanni rann honum blóðið til skyldunnar. Hann vildi skapa ungu fólki sem flosnaði upp úr hefðbundnu bóknámi valkost og sem innfæddur Suðurnesjamaður beindi hann sjónum að námi sem tengdist sjónum og fiskvinnslu.

Ólafur kynnti skólanefnd Fjölbrautarskólans verkefnið og hún samþykkti áætlun um það. Boltinn var því farinn að rúlla. Núna, tólf árum síðar, stunda um 50 manns víða um landið grunnnám í skólanum, 24 nemendur eru framhaldsnámi og 18 stunda nám í netagerð.

Hann kynnti sér sambærilegt nám á Norðurlöndunum og víðar. Hann lagði síðan hugmyndir um eflingu fræðslu í sjávarútvegi fyrir hagsmunaaðila á Suðurnesjum og fékk strax mjög jákvæðar undirtektir. Í mars 2009 var stofnfundur Fisktækniskóla Íslands í Grindavík haldinn og í júní sama ár var Ólafur ráðinn framkvæmdastjóri skólans. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, veitti Ólafi launalaust leyfi frá starfi skólameistara Fjölbrautaskóla Suðurnesja til að vinna framgangi verkefnisins.

Staðsetning skólans var engin tilviljum. Grindavík er mitt í hringiðu sterkra og framsækinna sjávarútvegsfyrirtækja þar sem er kjörin staðsetning með tilliti til starfsnámsins.

„Þetta er ekki fyrsta sjávarútvegstengda námið sem boðið er upp á hér á landi. Það voru gerðar tvær tilraunir á Dalvík með slíkt nám og einu sinni í Hafnarfirði en það gekk ekki upp. Lykilatriðið er að geta boðið upp á námið í heimabyggð. Það flytur enginn frá Raufarhöfn, svo dæmi sé tekið, til Grindavíkur til þess að læra handverkið. Það lærist í heimbyggð þar sem útgerðin er. Bóklegi hlutinn fer fram með lotunámi samkvæmt sömu námskrá fyrir allt landið og með þessu móti hefur okkur tekist að byggja upp námið á 5 stöðum á landinu í nánu samstarfi við sjávarútvegsfyrirtækin á hverjum stað. Skólinn þarf að vera í tengslum við sjávarútveginn og greinin þarf að hafa áhrif á það hvernig námið er byggt upp og deila ábyrgð á uppbyggingunni,“ segir Ólafur.

Lágmarks opinber stuðningur

Sjávarútvegsfyrirtækin koma þannig inn í rekstur skólans að þau útvega aðstöðu sem er þeirra ómetanlega framlag. Þannig er nemendum tryggður aðgangur að nýjasta tæknibúnaði í heiminum skólanum að kostnaðarlausu. Ólafur segir að lítill skóli eins og Fisktækniskólinn geti ekki byggt upp verknámsstofur með öllum þeim tækjum og búnaði sem þyrfti. Þess vegna var farin sú leið að efna til samstarfs við fyrirtækin í greininni sem á endanum hafa þann hag af starfsemi skólans að hafa aðgang að því sérmenntaða vinnuafli sem hann útskrifar. Þannig var skólinn uppbyggður strax í upphafi og hefur þessi stefna reynst mjög vel.

Í sambærilegum skólum í Danmörku og víðar fá sjávarútvegsfyrirtækin greitt frá hinu opinbera fyrir að sjá um starfstengda námið auk þess sem nemendur eru á launum á meðan á því stendur. Það er því ólíku saman að jafna í fisktækninámi á Íslandi og annars staðar en það er engu að síður mikill áhugi og ásókn í skólann. Þannig eru núna 50 manns í grunnnámi sem er stór hópur þegar litið er til þess að það eru jafnvel innan við tíu manns í kjötiðnaðarnámi á Íslandi og svipaður fjöldi í bakaranámi, svo dæmi séu tekin. Gamlar, rótgrónar og lögbundnar iðngreinar eiga á sama tíma mjög undir högg að sækja eins og Fiskifréttir hafa greint frá að undanförnu. Samkvæmt nýrri samantekt Menntamálastofnunar völdu aðeins 13,5% ungra nýnema á framhaldsskólastigi að leggja stund á starfsnám á síðasta skólaári. Meðal Evrópulanda er hlutfall ungs fólks í starfsnámi einungis lægra í Litháen og Írlandi, samkvæmt nýrri skýrslu OECD um menntamál. Að meðaltali stunda tæp 19% ungs fólks í 27 Evrópulöndum starfsnám en hlutfallið á Íslandi er 10,2%.

Hækka um fimm launaflokka

Ólafur segir að nemendur í Fisktækniskólanum þurfi að hafa áhuga á náminu og námið þurfi að gefa þeim eitthvað til baka. Fyrirtækin bjóða þeim hærri laun sem hafa þessa þekkingu sem nemendur afla sér í starfstengda náminu. Alls staðar annars staðar, Þýskalandi, Danmörku og víðar er vinnustaðanám launað en hér er það ekki svo nema í löggiltum iðngreinum. Hjá Fisktækniskólanum er gulrótin meðal annars sú að nemendur geta að námi loknu hækkað í launum eða haldið áfram í öðru námi. Allt frá árinu 2010 hefur Fisktækniskólinn staðið í ströngu í samningum við menntamálaráðuneytið um grunnnámið til lengri tíma. Fram til 2017  hefði aðeins samist til einnar annar eða tveggja anna í senn en 2017 fékk skólinn loks samning til fjögurra ára. Ólafur segir erfitt að byggja upp skóla til framtíðar undir þessum kringumstæðum. Engu að síður er góð aðsókn að skólanum og viðurkenning atvinnulífsins er fyrir hendi. Samningur er til að mynda milli aðila vinnumarkaðarins að nemendur sem útskrifast úr grunnnáminu hækki strax um fimm launaflokka.

Grunnnámið er til tveggja ára. Fyrsta önn fer fram í skólanum, önnur önn á vinnustöðum þar sem nemendur fá að kynnast sjávarútvegi frá öllum hliðum. Þá tekur við þriðja önnin í skóla og þá sú fjórða á vinnustöðum.

„Að vinna í sjávarútvegi er yfirgripsmikið hugtak og getur verið allt frá því flaka fisk yfir í það að selja saltfisk í Lissabon og allt þar á milli. Störfin geta verið hjá fiskvinnslufyrirtækjum, Íslandsstofu, fiskmörkuðunum, Sjávarklasanum, Codland eða hvar sem er. Allt þetta er að vinna í fiski. Sú mýta að það að vinna í fiski sé að vera í kulda og trekki og flaka er sem betur fer á undanhaldi. Önnur störf hafa komið í staðinn og námið hefur tekið mið af því. Sjávarútvegurinn er kominn langleiðina inn í fjórðu iðnbyltinguna á undan öllum öðrum atvinnugreinum. Sem dæmi má nefna að nemendur okkar fara um borð í varðskipin, rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, heimsækja Matís og fá að kynnast allri virðiskeðjunni. Á þriðju önn kynnast þeir gæðakerfum, fiskvinnsluvélum, sölukerfum, stoðkerfum sjávarútvegsins og lögum og reglum. Á lokaönn grunnnámsins hefur nemandi valið það svið sem hann vill starfa við. Það getur verið sjómennska, fiskvinnsla, fiskeldi eða í stoðkerfum sjávarútvegsins svo dæmi séu tekin.“

Sérnám

Að loknu grunnnámi í Fisktækniskólanum opnast möguleikar fyrir nemanda á starfi innan sjávarútvegsfyrirtækja sem faglærður einstaklingur í veiðum, vinnslu eða fiskeldi. Einnig býðst honum að halda áfram námi við skólann. Það nám er ekki niðurgreitt og kostar til að mynda eins árs nám í Marel vinnslutækni 650.000 krónur. Mörg dæmi eru um að fyrirtæki styrki nemendur til námsins. 10 nemendur komast að á hverju ári. Námsbrautin var þróuð í samstarfi Marel og Fisktækniskólans. Á Íslandi eru 30-40 flæðilínur frá Marel á Íslandi en 150 nákvæmlega eins flæðilínur eru út um allan heim og fer fjölgandi og starfsvettvangurinn því breiður að námi loknu. Marel leggur til búnað og starfsmenn.

Innifalið í náminu er þjálfun á vélar Marels í Progress Point, sýningar- og ráðstefnuhúsi fyrirtækisins í Kaupmannahöfn, þar sem vélarnar voru keyrðar með fiski. Ólafur segir að framlag Marel til skólans sé ómetanlegt, jafnt í formi þekkingar, aðgangs að starfsmönnum til þjálfunar og kennslu, þróunarvinnu og aðstöðu. Sjávarútvegssýningin IceFish hefur styrkt tvo nemendur til náms á framhaldsbrautum Fisktækiskólans þriðja hvert ár með 500.000 króna framlagi fyrir hvorn. Þegar hafa 30 nemendur útskrifast í Marel vinnslutækni og fjórði hópurinn stundar nú þetta nám.

Auk Marel vinnslutækni er val um eins árs nám í gæðastjórn og fiskeldi. Undanfarar að hvoru tveggja er nám í Fisktækni. Gæðastjórnun er hagnýtt nám til eins árs sem er í samstarfi við gæðastjórnunarfyrirtækið Sýni. Einnig er mikil ásókn í það og þar eru nú 14 í námi. Ólafur segir gríðarlega eftirspurn eftir menntuðum gæðastjórum í fiskvinnslu og að skólinn hafi ekki undan að útskrifa þá. „Það var einmitt þetta sem hið framsýna fólk í greininni sá fyrir. Það er enginn grundvöllur fyrir rekstri matvælaframleiðslu nema með gæðakerfi og gæðastjóra.“

18 í netagerðarnámi

Þriðja námsbrautin er fiskeldi sem er sú grein innan sjávarútvegsins sem hraðast vex þessi árin. Um er að ræða hagnýtt nám til eins árs og er námsbrautin byggð upp í samstarfi við Háskólann á Hólum og starfandi fyrirtæki í greininni. Námið er sveigjanlegt og hentar vel þeim sem eru í vinnu.

Frá og með haustinu 2018 býður Fisktækniskólinn upp á þriggja ára iðnnám í netagerð sem var nánast deyjandi iðngrein á landinu. Námið er samkvæmt samstarfssamning við Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem áður bauð upp á þetta nám. Tekist hefur að blása í glæður netagerðanámsins því það sækja nú alls 18 nemendur. Meðal kennara er Hermann Guðmundsson netagerðameistari sem hefur hannað mörg af fengsælustu veiðarfærum sem þróuð hafa verið á Íslandi, Hörður Jónsson frá Veiðarfæraþjónustunni og Rut Jónsdóttir frá Hampiðjunni.

„Draumur okkar er að rætast því skólinn er á góðri leið með að verða það sem hann átti alltaf að vera - raunhæfur valkostur fyrir ungt fólk. 10% ungs fólks hér á Suðurnesjum fór ekki í nám eftir grunnskóla. Við vildum fara aðra leið til þess að mæta þörfum þessa hóps. Vandi sjávarútvegsins er markaðssetningin. Við höfum kynnt þann starfsvettvang sem þar leynist eins og ef við við leyfðum okkur að kynna sjúkrahúsin með þeim hætti að aðalstarfsemin sem þar færi fram væri ræstingar. Það er vissulega margir sem vinna á gólfinu í kulda og trekki í fiskvinnslunni en það eru líka mjög margir sem vinna við hátæknilegar vélar, í sölustarfsemi eða gæðaeftirliti svo fátt eitt sé nefnt. Sjávarútvegurinn er kominn lengst allra atvinnugreina inn í fjórðu iðnbyltinguna. En það vill enn brenna við að við tölum greinina niður eins og staðan væri sú að við værum ennþá einungis í því að afla hráefnis og selja fiskinn óunninn og frosinn í gámum til útlanda.“