miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bakteríur dafna á plasti í hafinu

Guðsteinn Bjarnason
13. september 2020 kl. 09:00

Plast í hafinu er orðið meiriháttar vandamál. MYND/EPA

„Við ætlum að komast að því hvort plast geti breitt út sjúkdómsvaldandi bakteríur og sýklalyfjaónæmi í norsku hafumhverfi,“ segir Nachiket Marathe, ein höfunda greinar um niðurstöður rannsóknar um plast í hafinu.

Norsk rannsókn sýnir að sjúkdómsvaldandi bakteríur geta lifað á plasti í hafinu. Norska hafrannsóknastofnunin, Havforskningsinstituttet, segir frá þessu á vef sínum, hi.no.

„Eftir því sem við best vitum er þetta í fyrsta sinn sem sjúkdómsvaldandi bakteríur, sem einnig eru sýklalyfjaónæmar, finnast á plasti í hafi við Noreg,“ segir Nachiket Marathe, ein höfunda greinar um niðurstöður rannsóknarinnar.

Þessar bakteríur geta valdið sjúkdómum bæði í mönnum og fiskum. Sumar þeirra hafa borist í hafið af landi, til dæmis úr skolpræsum, en fjölmargar eru fyrir í hafinu frá náttúrunnar hendi.

Stofnunin greinir frá því að þegar bakteríur koma sér fyrir á plasti myndi þær slímhúð sem dregur til sín næringu og vex. Í þessari sýklaskán geta bakteríurnar skipst á genum og þar með eiginleikum, þar á meðal myndað sýklalyfjaónæmi.

Vísindamenn stofnunarinnar hyggjast rannsaka þetta betur. Þessar fyrstu niðurstöður eru byggðar á takmörkuðum gögnum en næst er meiningin að safna gögnum í stórum stíl og raðgreina erfðaefnið til að fá betri mynd af eiginleikum sýklanna.

Meðal annars er ætlunin að kanna hvaða bakteríur hafa betri möguleika en aðrar til þess að vaxa og dafna á plasti í hafinu. Einnig verður kannað hvernig þær þrífaast á mismunandi tegundum af plasti.

„Við ætlum að komast að því hvort plast geti breitt út sjúkdómsvaldandi bakteríur og sýklalyfjaónæmi í norsku hafumhverfi,“ segir Marathe.